ÁTVR hættir að selja Lunda

ÁTVR hefur lengi framleitt neftóbak.
ÁTVR hefur lengi framleitt neftóbak.

ÁTVR hefur ákveðið að hætt verði innkaupum á reyklausa tóbakinu Lunda og að ekki verði teknar í sölu nýjar tegundir á meðan úr því verði skorið hvort þessar vörur séu í raun munntóbak frekar en neftóbak.

Á vef ÁTVR segir, að margar vísbendingar séu um að reyklaust tóbak sé frekar notað í munn en nef, ólíkt því sem var á árum áður. Þetta eigi líka við um íslenska neftóbakið en líkur séu á að það sé í auknum mæli notað sem munntóbak. ÁTVR lítur svo á að svara þurfi hvort og hvenær neftóbak verður munntóbak.

Íslenska neftóbakið hefur verið eina reyklausa tóbakið á markaði hérlendis í um 70 ár en Lundi kom á markað síðastliðið haust. ÁTVR segir hins vegar, að á undanförnum mánuðum hafi fyrirtækinu borist nokkur fjöldi umsókna um nýjar tegundir af reyklausu tóbaki.

Meginregla tóbaksvarnarlaga er að bannað sé að flytja inn til Íslands, framleiða og selja neftóbak. Undantekningin er að heimilt hefur verið að selja grófkorna neftóbak og á þeirri heimild hefur íslenskt neftóbak verið framleitt og selt hérlendis frá því um 1940. Hins vegar er bannað að selja fínkornótt neftóbak og allt munntóbak.

„Ekki er á þessu stigi hægt að segja neitt um hverjar lyktir þessa máls verða. Það veltur á afstöðu löggjafans. Það er hins vegar skoðun ÁTVR að verði lagaumhverfið óbreytt blasi við að „nef“tóbakstegundum muni fjölga umtalsvert á næstunni,“ segir á vef ÁTVR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert