Illa búnir bílar í vetrarfærð

Slys á vegum aukast til muna í þeirri slæmu færð …
Slys á vegum aukast til muna í þeirri slæmu færð sem nú ríkir. mbl.is/Hjörtur

Vetrarfærðin ætlar seint að taka enda, en í nótt og morgun hefur snjóað án afláts. Víða er hált undir nýföllnum snjónum og samkvæmt upplýsingum frá upplýsingafulltrúa Landsbjargar hafa björgunarsveitarmenn aðstoðað ökumenn á Kjalarnesi og Kollafirði þar sem bílar fuku út af veginum.

Einnig stöðvuðust bílar uppi við Ásbrú á Suðurnesjum. Þeir bílar sem þurfa á aðstoð Landsbjargar að halda eru flestir illa búnir og jafnvel enn á sumardekkjum. Óvenjumargir ökumenn hafa þurft á aðstoð að halda á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa orðið fjögur umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu síðan klukkan 10 í morgun, þar af fimm bíla árekstur í Hafnarfirði. Þar meiddist enginn alvarlega, en miklar tafir urðu á umferð. Ófærðarútköll aukast til muna í veðri sem þessu og nánast öll slys í umferðinni hálku- eða færðartengd.

Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands ætti snjókomu að linna seinni partinn í dag, en hitastig verður í kringum frostmark næstu daga. Um helgina mun þó hlýna örlítið.

Ástæða er til að ítreka fyrir lesendum nauðsyn þess að vera á vel búnum bílum þegar lagt er af stað út í færð af þessu tagi, þar sem gríðarmikil hálka er undir snjólaginu og því auðvelt að missa bíla út af vegum og festast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert