Markaðsvæðing mannslíkamans

Sílikonpúði frá franska fyrirtækinu PIP sem reynst hafa gallaðir.
Sílikonpúði frá franska fyrirtækinu PIP sem reynst hafa gallaðir. Reuters

Þung orð féllu á Alþingi í dag þegar þingmenn ræddu um sílíkonpúðamálið svonefnda. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. að málið væri  reginhneyksli og afhjúpandi fyrir réttindaleysi almennings.

„Við stöndum núna frammi fyrir ákveðnum vandkvæðum varðandi markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar og markaðsvæðingu mannslíkamans. Þetta mál hefur grafið verulega undan trausti okkar á heilli stétt, sem er læknastéttin en það grefur einnig undan trausti okkar á hinu opinbera eftirlitskerfi,“ sagði Ólína en hún bað um umræðuna.  Sagði hún að markaðsvæðing heilbrigðisþjónustunnar væri áhyggjuefni og einkum hið mikla samkrull einkareksturs og opinberrar þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sagði ljóst að embætti landlæknis hefði eftirlitshlutverk með læknisaðgerðum af þessu tagi. „Það er ákvæði um það í lögum að við sérstakar rannsóknir eigi (sérgreinalæknar sem vinna á stofum) að skila upplýsingum til landlæknis. Það er auðvitað makalaust að menn skuli svo þumbast við og ekki gera það með fullnægjandi hætti,“ sagði Guðbjartur og bætti við að þetta kallaði á að farið yrði yfir lagaumhverfið og hvernig væri hægt að gera slíkar kröfur.

Fram kom hjá Guðbjarti, að af um það bil 330 sérgreinalæknum, sem rækju einkastofur, ynnu um 200 einnig hjá opinberum stofnunum, margir í hlutastörfum. Tryggja verði að skráning á þjónustu við einstaklinga á einkastofum sé hluti af heildarkerfi.  Guðbjartur sagði síðan, að það hefði komið sér gríðarlega á óvart þegar í ljós kom að lýtalæknir hefði sjálfur flutt inn sílíkonbrjóstapúða.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að stærsta meinsemdin í heilbrigðiskerfinu væri eftirlitsþjónustan, sem væri ekki nægilega góð.  Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði nauðsynlegt í kjölfar þessa hneykslis að endurmeta allt regluverk og samskipti hins opinbera við einkareknar læknastofur. 

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að á fundi velferðarnefndar Alþingi í gær hefði komið fram, að ein lykilástæða þess að fjöldi kvenna leitaði til Jens Kjartanssonar, lýtalæknis, væri sú að hann starfaði á Landspítalanum. Nú stæðu þessar konur frammi fyrir því að þær væru með gallaða vöru í brjóstum sínum.

„Þær eru með vöru sem hugsanlega getur gert það að verkum að þær geta ekki gefið börnum sínum brjóst og hafa hugsanlega þegar skaðað börnin sín með því að gefa þeim brjóst vegna ónógra upplýsinga um þessa púða,“ sagði Eygló. „Það bera allir ábyrgð í þessu máli nema þessar konur.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að skurðaðgerðir ættu ekki að vera söluvara. „Að tala og hugsa um læknisfræðilega íhluti sem vöru er einmitt hluti af vandanum,“ sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert