Geta límt yfir símaskrána

Fyrirtækið Já, sem gefur út símaskrána, býður viðskiptavinum sínum upp á að fá límmiða sem hægt er líma á skrána og fela þannig myndina af Agli Einarssyni, sem prýðir forsíðuna.

„Við erum að bregðast við þörfum hjá okkar viðskiptavinum og viljum bjóða upp á þennan valkost,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, í samtali við mbl.is.

Egill hefur verið kærður fyrir nauðgun og stendur rannsókn málsins yfir.

Sigríður tekur fram að Já sé ekki aðili að málinu og vilji því ekki blanda sér í það. Fyrirtækið vilji hins vegar bjóða upp á þennan valkost og það sé gert af virðingu við notendur símaskrárinnar. Var ákvörðunin tekin fljótlega eftir að Egill hafði verið kærður.

„Ég myndi ekki segja að það sé stór hópur sem hafi verið að nýta sér þetta. En þetta eru nokkrir aðilar sem hafa verið að biðja um þetta. Og það er sjálfsagt mál að verða við þeirri ósk,“ segir Sigríður aðspurð.

Þeir sem óska eftir að fá límmiða geta haft samband við Já en tvær tegundir hafa verið framleiddar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert