Bjartsýni í bland við bölsýni

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar voru ekki sammála um margt við sérstaka umræðu um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar á Alþingi í dag. Störf voru annars vegar sögð töpuð eða unnin, fólksflótti mikill eða nær enginn og horfurnar bjartar eða dökkar.

Umræðuna hóf Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, og sagði meðal annars það sem allir voru sammála um. „Allar forsendur eru fyrir því hér á landi að búa til fyrirmyndar samfélag þar sem almenn velferð ríkir.“ Birkir segir að ríkisstjórnin þurfi að nýta þau tækifæri sem gefist en það hafi henni ekki tekist á þeim rúmu þremur árum sem liðin eru frá efnahagshruninu. Hann sagði fjárfestingu í sögulegu lágmarki, sjávarútveginum væri haldið í heljargreipum auk þess sem orkufyrirtækin geta ekki farið í nauðsynlegar rannsóknir vegna þess að rammaáætlun hefur ekki enn verið lögð fram. Hann sagðist kalla eftir lausnum og aðgerðum.

Til svara var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sem segir ljóst að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum hafi sjaldan eða aldrei verið umfangsmeiri. Hún nefnir að ríkisstjórnin vilji að uppbyggingin hvíli á mörgum stoðum en ekki aðeins stóriðju og minnist á græna hagkerfið í því sambandi. Hún segir unnið að lagningu grunns að fjölbreyttu atvinnulífi sem tryggi að unga fólki vilji búa á Íslandi til framtíðar.

Þá fór hún yfir fjárfestingar og vísaði meðal annars í stefnumörkun um erlenda fjárfestingu. Hún segir horfur góðar og framkvæmdir víða í gangi og fleiri séu fyrirhugaðar á þessu ári og næsta. Þá séu á annan tug fjárfestingasamninga til skoðunar og umfang þeirra geti slagað hátt í 200 milljarða króna, og muni þeir skapa þúsundir starfa á næstu árum.

Jóhanna segir skýr teikn á lofti um að úr landflótta sé að draga, þeim fækkaði úr 4.800 árið 2010 í 1.400 í fyrra sem fluttu frá landinu. Þá segir hún hagvöxt hafa verið þrjú til fjögur prósent og horfur séu áfram bjartar. Margt bendi til að fyrirliggjandi spár séu í lægri kantinum og hagvöxtur verði meiri á þessu ári en spáð var.

Hún segir að full ástæða sé til bjartsýni enda hafi væntingavísitalan hækkað mikið undanfarna tólf mánuði eða um tuttugu prósent. Hún hafi ekki verið hærri síðan á sumarmánuðum 2008. „Fólkið í landinu sér að við erum á réttri leið,“ sagði Jóhanna.

Hvað rammaáætlun áhrærir segist Jóhanna búast við að hún verði lögð fyrir þingið á næstu dögum, verið sé að leggja lokahönd á hana hjá stjórnarflokkunum.

Öfugmæli forsætisráðherra

Ekki voru allir sammála forsætisráðherra og sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, að mikil öfugmæli hefðu komið fram hjá Jóhönnu. Hann segir að störfum hafi fækkað um þúsundir. Og þrátt fyrir að góðir hlutir séu að gerast, s.s. í ferðaþjónustu og á fleiri sviðum, verði það ekki af fullri alvöru fyrr en fjárfestingar fáist í sjávarútveg og stóriðju. Hann segir fjárfestingu í sjávarútvegi hafa verið um 4-5 milljarðar en þyrfti að vera í kringum 20 milljarða.

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, kom þá næstu upp í ræðustól og sagði dæmalaust að hlusta á bölsýnisræðu Jóns Gunnarssonar dag eftir dag, mánuð eftir mánuð og bráðum ár eftir ár. „Að halda því fram að störf séu að tapast þegar staðreyndirnar eru allt aðrar.“ Hann tók undir með Birki Jóni að tækifærin væru fyrir hendi og þau ætti að nýta,  en ekki síst að læra af mistökum fortíðar. 

Næstur tók til máls Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, og var afskaplega reiður. Hann er reiður yfir því að ríkisstjórnin reyni að trúa þingmönnum trú um að allt sé í himnalagi hér á landi. Á meðan flýi fólk landi í stórum stíl og það sé vegna þess að ríkisstjórninni hafi ekki tekist vel upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert