Kristján hafnaði viðtali við rannsóknarnefndina

mbl.is/Arnaldur

Kristján Gunnarsson sat samtímis í stjórnum lífeyrissjóðsins Festu og Sparisjóðs Keflavíkur en Festa átti 15% hlut í sparisjóðnum árið 2006. Samkvæmt skýrslu úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða virðist ljóst að seta Kristjáns á stjórnarfundum Festu þar sem fjallað var um málefni Sparisjóðsins sé brot á vanhæfisákvæðum í starfsreglum stjórnar lífeyrissjóðsins og í andstöðu við samþykktir hans. Kristján sagði sig í fyrra úr stjórn Festu og einnig frá formennsku í Starfsgreinasambandinu. Hann vildi ekki koma í viðtal fyrir úttektarnefndina.

Vísar í lög um verðbréfaviðskipti

Úttektarnefndin rekur í skýrslu sinni fundargerðir Festu þar sem fjallað var um viðskipti með bréf SpKef en tekur ekki afstöðu til þess hvort framganga Kristjáns hafi gengið gegn lögum. Nefndin bendir engu að síður sérstaklega á að í lögum um verðbréfaviðskipti segi að innherja sé óheimilt að ráðleggja þriðja aðila á grundvelli innherjaupplýsinga, að afla fjármálagerninga eða ráðstafa þeim eða hvetja að öðru leyti til viðskipta með fjármálagerningana.

Þessi málsgrein laganna virðist sérstaklega koma til álita þegar metið er hvort þátttaka Kristjáns í umræðum í stjórn Festu um málefni Sparisjóðs Keflavíkur rúmast innan ramma laganna eða ekki, segir í skýrslunni.

Lífeyrissjóðurinn Festa, sem varð til árið 2006 við sameiningu Lífeyrissjóðs Suðurlands og Lífeyrissjóðs Vesturlands, tapaði samtals 19 milljörðum króna á árunum 2008-2010. Sjóðfélagar eru tæplega 15 þúsund.

Málefni Sparisjóðsins í Keflavík koma mikið við sögu á stjórnarfundum Festu og þá aðallega á árinu 2007. Við stofnun Festu á sjóðurinn 15% af stofnfé Sparisjóðsins sem metið var í reikningum lífeyrissjóðsins á 510 milljónir króna.

Kristján var stjórnarmaður í Festu lífeyrissjóði, þar af var hann stjórnarformaður árin 2006, 2008 og 2010. Jafnframt var hann stjórnarmaður í Sparisjóðnum í Keflavík þau ár sem úttektin nær yfir. Hann var kjörinn stjórnarformaður Sparisjóðsins í Keflavík árið 2009. Þá var Kristján skráður fruminnherji í sparisjóðnum frá árinu 2006, sbr. 121. gr. laga um verðbréfaviðskipti.

Baðst undan viðtali við nefndina

Með tilliti til mikils eignarhluta Festu lífeyrissjóðs í stofnfjárbréfum og skuldabréfum útgefnum af Sparisjóðnum í Keflavík var Kristjáni boðið að koma á fund úttektarnefndarinnar og skýra sína hlið og aðkomu að viðskiptum Festu lífeyrissjóðs við Sparisjóð Keflavíkur. Hann varð ekki við því.

Kristján hefur sagt af sér sem stjórnarmaður Festu og jafnframt látið af stjórnarformennsku í Sparisjóðnum í Keflavík en hann hafði einnig verið stjórnarmaður þar árin 2006-2011.

Eðlileg dreifing fjárfestingar - fyrir utan SpKef

Í niðurstöðu úttektarnefndarinnar um lífeyrissjóðinn Festu segir að þegar eignarhlut Festu í Sparisjóði Keflavíkur sleppi sé fjárfesting sjóðsins eðlilega dreifð á milli fyrirtækja, bæði hvað varðar hlutabréfa- og skuldabréfakaup.

„Því verður ekki annað sagt en að skýringar á tapi sjóðsins sé að leita í bankahruninu sjálfu að langmestu leyti enda þótt finna megi að einstaka fjárfestingum,“ segir í skýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert