Þór gerir það gott í S-Kóreu

Úr teiknimyndinni Hetjur Valhallar - Þór.
Úr teiknimyndinni Hetjur Valhallar - Þór. Caoz

Íslenska teiknimyndin Hetjur Valhallar - Þór var frumsýnd í Suður-Kóreu fyrir helgi. Hafa móttökur myndarinnar verið „hreint út sagt æðislegar“, eins og fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu Caoz, sem er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð þrívíddarteiknimynda.

Er hér um að ræða fyrstu íslensku teiknimyndina í fullri lengd. „Myndin varð vinsælasta erlenda myndin í kvikmyndahúsum Suður-Kóreu þessa helgina og sló út ekki slakari myndir en Star Wars í þrívídd, War Horse, Tinker Tailor Soldier Spy og Happy Feet 2,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að auki að Hetjur Valhallar hafi strax um helgina næstum tvöfaldað aðsóknartölur teiknimyndarinnar Happy Feet 2, þrátt fyrir að sú mynd hafi verið í sýningu þar í landi í tvær vikur á undan. „Heildarvelta helgarinnar hljóðar þannig upp á tæpar 180 milljónir íslenskra króna,“ kemur fram í tilkynningunni.

Dreifingaraðilar myndarinnar í Suður-Kóreu fengu poppstjörnuna Haha í lið með sér og hefur talsverð kynning farið fram í landinu á Hetjum Valhallar.

„Framleiðslufyrirtækið CAOZ framleiðir Hetjur Valhallar – Þór sem frumsýnd var á Íslandi hinn 14. október síðastliðinn. Myndin hefur verið seld til um 60 landa og er Suður-Kórea fyrsta landið utan Íslands sem tekur myndina til sýningar og af viðbrögðunum að dæma er framtíðin björt fyrir Þór, Mjölni og félaga,“ segir að lokum í fréttatilkynningunni.

Stilla úr teiknimyndinni Hetjur Valhallar - Þór.
Stilla úr teiknimyndinni Hetjur Valhallar - Þór. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert