„67% hækkun út úr kortinu“

Júlíus Vífill telur hækkun stöðumælagjalda í miðborg Reykjavíkur ótæka.
Júlíus Vífill telur hækkun stöðumælagjalda í miðborg Reykjavíkur ótæka. Júlíus Vífill Ingvarsson

Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi telur nýlegar fyrirætlanir umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar um hækkun stöðumælagjalda í Reykjavík ekki vera gerðar til samræmis við meðalhófsreglu.

„Öllum hlýtur að vera ljóst að 67% hækkun er algjörlega út úr kortinu og getur ekki talist eðlileg stjórnsýsla“ segir Júlíus Vífill en samþykktin felur í sér hækkun stöðumælagjalda um 66%-87% auk lengingar gjaldskyldutíma.

„Samtök og samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðboginni, Miðborgin okkar, voru hvorki höfð með í ráðum né upplýst um þessa tillögu. Þess í stað fréttu þau af þessu sama morgun og hún birtist í fjölmiðlum.“

Hann segir hækkun gjaldskyldu í miðborginni ekki endilega þurfa að vera stórkostleg tíðindi „en hækkun upp á 67% á einu bretti er auðvitað algjörlega ótæk“.

„Því hefur verið haldið fram að hækkunin sé gerð í takt við efnahags- og verðlagsþróun en þá vaknar sú spurning af hverju ekki var hækkað árið 2010 eða 2011, þar sem sami meirihluti hefur verið við völd í borginni í tvö ár,“ segir Júlíus Vífill.

Miðborgin á tímamótum

Hann segir borgina standa ákveðnum tímamótum því meira rými sé nú laust á Laugaveginum en verið hefur um langt skeið. „Þá horfir maður til dæmis til efsta hluta Laugavegarins þar sem 3.000 fermetra verslunarhúsnæði hefur staðið autt um langan tíma og engin breyting virðist ætla að vera á því í bráð.“

Hann segir það frumskyldu borgaryfirvalda þegar unnið sé að tillögum sem þessum að hafa samráð við þá sem málið þekkja og hafa reynslu af rekstri í miðborginni, svo sem áðurnefnd hagsmunasamtök, Miðborgin okkar.

„Mér finnst meirihluti Besta flokks og Samfylkingarinnar hafa tileinkað sér þau vinnubrögð að hafa sem minnst samráð við borgarbúa á öllum sviðum. Það er áhyggjuefni og þvert á það sem þessir flokkar lofuðu borgarbúum í upphafi kjörtímabils.

Hann segist ekki vita til þess hvort verið sé að skipuleggja mótmæli en að líklegt hljóti að teljast að kaupmenn geri athugasemdir við ákvarðanatökuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert