Safnasafnið fékk Eyrarrósina

Níels Hafstein og Magnhildur Sigurðardóttir tóku við verðlaununum úr hendi …
Níels Hafstein og Magnhildur Sigurðardóttir tóku við verðlaununum úr hendi Dorrit Moussaieff. mbl.is/Golli

Safnasafnið – Alþýðulistasafn Íslands, Svalbarðsströnd, fékk í dag Eyrarrósina.  Dorrit Moussaieff forsetafrú afhenti viðurkenninguna og verðlaunagripinn.

Viðstaddir athöfnina voru m.a. fulltrúar tilnefndra verkefna, fulltrúar sveitarfélaga og forystumenn í heimabyggðum. Eyrarrósin er sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni sem Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands hafa sett á stofn. Verndari Eyrarrósarinnar er Dorrit Moussaieff forsetafrú.

Þrjú verkefni voru tilnefnd til Eyrarrósarinnar 2011, Safnasafnið á Svalbarðsströnd, Sjóræningjahúsið við Patreksfjörð og Tónlistarhátíðin Við Djúpið á Ísafirði.

Verðlaunafé er að upphæð 1,5 milljónir króna og verðlaunagripurinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur myndlistarkonu.

Safnasafnið – Alþýðulistasafn Íslands stendur við þjóðveg eitt rétt utan við Akureyri, í gamla Þinghúsinu á Svalbarðsströnd. Safnið var opnað árið 1995 og vinnur metnaðarfullt brautryðjandastarf í söfnun og varðveislu á íslenskri alþýðulist. Safnið tengir saman alþýðulist og nútímamyndlist af alúð og kímni og vinnur ávallt í nánu samstarfi við samfélagið í kring.

Við athöfnina í dag tilkynnti Hrefna Haraldsdóttir, stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, að samningur aðstandenda Eyrarrósarinnar; Listahátíðar, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands, yrði endurnýjaður til næstu þriggja ára, enda mikil ánægja aðstandenda með verkefnið frá upphafi.

www.safnasafnid.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert