Staðfestir að Icesave hefði sett Ísland á hausinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlausson, sagði á Alþingi í dag að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um afföll íbúðarlána og kostnað við niðurfærslu lána staðfesti það, væru forsendur hennar réttar, að ef Icesave-samningarnir sem ríkisstjórnin hefði reynt að koma í gegn hefðu verið samþykktir hefði það leitt til gjaldþrots íslenska ríkisins.

„Ríkisstjórnin hefði sett Ísland á hausinn með Icesave-samningunum sem reynt var að keyra hérna í gegn hvað eftir annað því að þar er haldið fram, og skýrsluhöfundar leggja raunar lykkju á leið sína til þess að halda því fram, að ef að ráðist yrði í niðurfærslu og þann 200 milljarða kostnað sem henni fylgdi þá gæti það sett landið í þrot,“ sagði hann.

Sigmundur sagði rétt að hafa það í huga í því sambandi að vextir af þeim Icesave-samningum sem ríkisstjórnin hefði reynt að fá samþykkta væru nú orðnir vel yfir 100 milljarða króna í erlendri mynt sem hefðu farið úr landi en ekki skilað sér aftur inn í hagkerfið eins og þeir fjármunir sem færu í niðurfærslu lána.

Þá sagði Sigmundur skýrslu Hagfræðistofnunar ennfremur staðfesta gríðarleg mistök ríkisstjórnarinnar við stofnun nýju bankanna og yfirfærslu verðtryggðra lána yfir í þá sem og við yfirfærslu gengistryggðra lána.

Umræða fór fram á Alþingi í dag um skýrslu Hagfræðistofnunar að beiðni þingmanna Framsóknarflokksins en skýrslan kom út í janúar síðastliðnum og unnin að beiðni forsætisráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert