Ósáttur við að vera þjófkenndur

Frá Landmannalaugum - mynd úr safni
Frá Landmannalaugum - mynd úr safni mbl.is/Árni Sæberg

Guðmundur Gústafsson, einn þeirra sem voru í hópi jeppamanna í skála Ferðafélagsins í Landmannalaugum um helgina, er afar ósáttur við að hópurinn sé þjófkenndur en gps-staðsetningartæki var stolið í skálunum um helgina, líkt og kom fram í frétt mbl.is í dag.

Hann segir að tíu til fimmtán manns hafi verið í hans hópi í skálanum aðfaranótt laugardags en alls voru um 100 manns í skálanum um helgina, að sögn Guðmundar. Hann þvertekur fyrir að hópurinn hafi gramsað í farangri gönguhóps í einu herberginu heldur hafi þau fært til farangur göngumannanna svo jeppahópurinn gæti allur gist saman í herbergi.

Að sögn Guðmundar voru vissulega læti í hópnum en örfáir einstaklingar innan hans voru undir áhrifum áfengis. Hann segist hafa ferðast mikið um hálendið og fullyrðir að í flestum tilvikum séu skrílslæti og fyllerí í skálum um helgar. „Að benda á okkur ein sem hóp, 10-15 manns, en af þeim voru kannski tveir til þrír á fylleríi, er afar ósanngjarnt. Við vorum komin í skálann klukkan eitt og það var fólk að koma í skálann til klukkan fjögur um nóttina.“

Guðmundur segir hópinn gríðarlega ósáttan við að bent hafi verið á þau ein í þessu tilviki. Aðalatriðið sé að hópurinn stal ekki neinu líkt og ýjað hafi verið að. Hann segir að fyrir það fyrsta eigi fólk ekki að skilja verðmæti eftir í skálanum þegar umgengni er jafnmikil og þarna er, segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Guðmundur viðurkennir að það hafi verið læti í hópnum en segir það afar ósanngjarnt að hópurinn hafi ekki fengið að skýra sitt mál fyrir stjórn Ferðafélags Íslands. Honum finnist eðlilegt að rætt sé við alla sem voru í skálanum umrædda helgi og reynt að afla upplýsinga um málið áður en það er kært til lögreglu.

Ferðamenn leggja leið sína í Landmannalaugar jafn vetur sem sumar. …
Ferðamenn leggja leið sína í Landmannalaugar jafn vetur sem sumar. Mynd úr safni mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert