Tíminn dýr í óvissu

Orri Hauksson
Orri Hauksson

Stjórn Samtaka iðnaðarins mun á þriðjudaginn ræða nýfallinn dóm Hæstaréttar um vexti á gengislánum á fundi á þriðjudag. Að sögn Orra Haukssonar, framkvæmdastjóra SI, segir aðalmálið vera hversu dýr tíminn er í þessari óvissu.

 Þeir sem vilja vera í skilum og reka heiðvirða starfsemi eru margir í kvíðakasti yfir því hvernig eigi að haga sér í þessari stöðu, t.d. borga af lánum eða ekki o.s.frv.

Á föstudag verður síðan opinn félagsfundur hjá samtökunum þar sem lögmennirnir Ragnar H. Hall og Þorsteinn Einarsson, sem hafa komið að þessum málum, og Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur, ræða málin.

Hvað þýðir dómurinn fyrir fyrirtæki

Orri segir að fjölmargir félagsmenn séu að velta fyrir sér hvað nýgenginn dómur þýðir í raun, hversu fordæmisgefandi hann sé fyrir fyrirtæki og eins fyrir gjalddaga sem ekki hafa verið greiddir.

Það má ætla að síðasti dómur muni hafa mikil áhrif á fjölda félagsmanna SI sem eru með gengistryggða lánasamninga. Einnig hefur hann áhrif á fjármögnunar- og kaupleigusamninga sem hafa verið dæmdir sem ólögleg erlend lán.

Þeirri spurningu er hins vegar ósvarað hvaða áhrif dómurinn hefur á þann fjölda einstaklinga og fyrirtækja sem ekki greiddu af lánunum og voru með sín fjármál í svonefndri frystingu.

Ekki verður séð að Hæstiréttur taki á þeirri spurningu í dómi sínum og hefur því verið haldið fram að þeir aðilar muni fá litla sem enga leiðréttingu á sínum lánasamningum. Hvað sem því líður verður að teljast allt eins líklegt að það þurfi nýjan dóm til að láta reyna á réttarstöðu þessara aðila, segir Orri.

Þeir sem tóku gengistryggð lán standa betur að vígi en þeir sem tóku hefðbundin lán

Staðan í dag er sú að þeir einstaklingar og fyrirtæki sem tóku á sínum tíma gengistryggð lán standa mun betur að vígi en þeir sem tóku hefðbundin verðtryggð íslensk lán. Þá er einnig hægt að lesa dóminn með þeim gleraugum að einungis þeir einstaklingar og fyrirtæki sem höfðu fjárhagslegt bolmagn til að standa í skilum með afborganir af lánunum fái leiðréttingu en aðrir sem voru með sín fjármál í frystingu og þurftu virkilega á leiðréttingunni að halda fá hana ekki. Að einhverju marki vekur dómurinn nýjar spurningar um erlendu lánin, segir Orri.

Brýnt sé fyrir íslensk fyrirtæki að þau viti fjárhagslega stöðu sína og geti á þeim grunni hafið endurreisn og umskipti. Fyrir fyrirtækin er tíminn naumur, segir Orri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert