Enginn handtekinn vegna líkamsárásar

Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við líkamsárás á ungan mann í Skútuhrauni í Hafnarfirði aðfaranótt laugardagsins síðasta.

Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er rannsóknin enn í gangi en drengnum var troðið ofan í skott á bifreið sem var ekið að Mjóddinni í Reykjavík. Hann kom sér sjálfur á slysadeild og var handleggs- og fótbrotinn, ásamt öðrum áverkum. Aðspurður vill Friðrik Smári ekki gefa upp hvort málið tengist fíkniefnum.

Þá er rannsókn einnig í gangi á eldi í íbúðarhúsi við Hverfisgötu í Hafnarfirði á mánudagskvöldið en hann kviknaði eftir að molotovkokkteil var varpað að húsinu. „Hún er í gangi en það er óvíst hvernig henni mun vinda fram,“ segir Friðrik Smári. „Það hefur enginn verið handtekinn og enginn yfirheyrður sem grunaður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert