Viðbrögð lýtalækna vonbrigði

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson mbl.is/Kristján Jónsson

Embætti landlæknis ber nú ábyrgð á framkvæmd rafrænnar skráningar á heilbrigðisupplýsingum og á sjúkraskrá á landsvísu. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir viðbrögð lýtalækna og Læknafélagsins í PIP-brjóstapúðamálinu hafa valdið sér vonbrigðum.

Þetta var meðal þess sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ræddi á opnum degi hjá embættinu í dag.

Á vefsíðu velferðarráðuneytisins segir að Embætti landlæknis hafi nú fengið ábyrgð á nýju verkefni sem felur í sér yfirumsjón með öllum þáttum sem varða sjúkraskrá á landsvísu og framkvæmd rafrænnar skráningar heilbrigðisupplýsinga.

„Þetta er ákvörðun sem ég tók í samræmi við tillögur stýrihóps um upplýsingatækni. Verkefnið er gríðarstórt sem miklu skiptir að miði hratt og vel, því það er eitt af grundvallaratriðum vel rekins heilbrigðiskerfis að tryggður sé greiður aðgangur að vel og rétt skráðum upplýsingum um starfsemi og þjónustu“ er haft eftir ráðherra á vefsíðunni. 

Guðbjartur segir þar að fólk beri almennt virðingu og traust til Embættis landlæknis en því fylgi jafnframt væntingar og kröfur. Þetta hafi komið skýrt fram í tengslum við PIP-brjóstapúðamálið sem hafi reynst erfitt og raunar mun umfangsmeira en virtist í fyrstu. Það snúist ekki einungis um aðgerðir af hálfu heilbrigðisyfirvalda til að tryggja heilsufarsöryggi þeirra kvenna sem í hlut eiga, heldur veki það margvíslegar spurningar sem snúi að eftirlitshlutverki Embættis landlæknis, ekki síst gagnvart heilbrigðisþjónustu á einkareknum stofum sem veitt sé án greiðsluþátttöku hins opinbera og jafnvel á jaðri þess að teljast heilbrigðisþjónusta að sumra mati, þótt hún sé það lagalega.

„Í tengslum við þetta mál ákvað ég að stofna ráðgjafahóp til að fara í saumana á faglegum þáttum í starfsemi einkarekinna læknastofa og gera tillögur til úrbóta eftir því sem þörf krefur. Það er alveg ljóst að heilbrigðisyfirvöldum er skylt að sinna eftirliti með gæðum allrar heilbrigðisþjónustu í landinu. Þá verður líka að vera tryggt að eftirlitsaðilar hafi aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru til að sinna því á fullnægjandi hátt – en ég verð að segja að viðbrögð lýtalækna og raunar Læknafélagsins í þessu máli varðandi afhendingu upplýsinga og gagna til Embættis landlæknis hafa valdið mér furðu og vonbrigðum,“ sagði Guðbjartur á vefsíðu velferðarráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert