Styrmir: Ótrúleg afdalamennska

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Ragnar Axelsson

„Það er ótrúleg afdalamennska, að réttarhöldum fyrir landsdómi skuli ekki útvarpað og sjónvarpað. Sama þröngsýnin og olli því, að yfirheyrslur rannsóknarnefndar Alþingis fóru ekki fram fyrir opnum tjöldum,“ skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á vef Evrópuvaktarinnar.

„Fólkið í landinu á kröfu á því að geta fylgzt með þessum réttarhöldum. Sakborningurinn, Geir H. Haarde, ætti kröfu á því að réttarhöldunum yrði útvarpað og sjónvarpað. Það er enn hægt að bæta úr þessu. Það á að gera strax,“ skrifar Styrmir.

Ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þetta

Þá skrifar Styrmir að fréttir sjónvarps RÚV kl. 12.00 af réttarhöldum fyrir Landsdómi yfir Geir H. Haarde sýni, að það sé ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á að fylgjast með  réttarhöldunum í gegnum fréttamenn sem milliliði. „Og það er heldur ekki hægt að bjóða sakborningi upp á, að málflutningi hans sé miðlað áfram með þeim hætti sem gert var í fréttaútsendingu sjónvarps.

Í þessari skoðun er ekki fólgin nein ásökun á hendur fréttamönnum heldur er um svo flókin mál að ræða að það er ekki við því að búast að hægt sé að koma upplýsingum, sjónarmiðum og skoðunum sem fram koma til almennings með skilmerkilegum hætti og á svo skömmum tíma, sem fréttamönnum er ætlaður milli fréttatíma ljósvakamiðlanna og á netmiðlum.

Þetta er algerlega óviðunandi og full ástæða til að krefjast þess að frá og með morgundegi verði þessum réttarhöldum útvarpað og sjónvarpað í beinni útsendingu enda engin efnisleg rök sem mæla gegn því.

Allt annað er óvirðing bæði við sakborning og fólkið í landinu,“ skrifar Styrmir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert