Ríkisstjórnin ræddi um hælisleitendur

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra bar upp minnisblað um evrópsku stuðningsskrifstofuna í …
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra bar upp minnisblað um evrópsku stuðningsskrifstofuna í hælismálum á ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í dag og eitt af þeim málum sem hún ræddi var mál innanríkisráðherra um hælisleitendur.

Á fundinum voru alls fimm mál á dagskrá. Eitt af þeim var minnisblað um evrópsku stuðningsskrifstofuna í hælismálum (EASO) sem innanríkisráðherra bar upp á fundinum.

„Þetta er þessi alþjóðlega umræða sem fer fram núna,“ segir Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, aðspurð um málið.

Hún segir að þetta snúist um samningaviðræður sem eru í gangi um evrópska stuðningsskrifstofu í málefnum hælisleitenda.

„Þessi skrifstofa á að styrkja og þróa samstarf um málefni hælisleitenda og hælisumsóknir á milli ríkja,“ segir Halla.

Hún segir málið tengjast Dyflinnarreglugerðinni, en upphafleg hugmyndafræði á bak við hana var sú að dreifa álaginu á milli ríkja. „Við værum öll að hjálpast að.“

„Raunin hefur orðið sú að álagið er mikið í nokkrum löndum, en minna annars staðar,“ segir Halla.

Hún segir Íslendinga ekki fá almennt marga hælisleitendur miðað við Evrópu. „Þeir sækja yfirleitt um hæli í fyrsta landinu sem þeir koma inn í og það er eiginlega aldrei Ísland. Það hefur gerst, en það er afar sjaldgæft,“ segir Halla.

Hún segir að landið sem ber ábyrgð á vegabréfsáritun beri jafnframt ábyrgð á hælisumsókninni. Þá segir hún að flestir „sem hingað koma séu að reyna að komast vestur um haf. Þeir eru á leiðinni til Kanada en eru teknir með fölsuð skilríki og óska þá eftir hæli hér“.

„Það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun,“ segir Halla aðspurð um niðurstöður ríkisstjórnarinnar um málið, en segir þó að það ætli allir að taka þátt, þar á meðal Liechtenstein, Noregur og Sviss.

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra.
Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert