Tóku myndir af innslætti Pin-númera

Reuters

Kortasvikararnir sem lögreglan handtók komu hingað til lands í febrúar. Þeir komu fyrir fullkomnum afritunarbúnaði í hraðbönkunum, annars vegar til að lesa segulrendur á greiðslukortum og hins vegar settu þeir upp myndavélar til að ná myndum af innslætti Pin-númera.

Í tilkynningu frá Valitor segir að í síðustu viku hafi komst upp um tilraun til kortasvika hér á landi. „Tveir menn, sem urðu uppvísir að því að afrita kortaupplýsingar ásamt Pin-númerum úr hraðbönkum á höfuðborgarsvæðinu, sitja nú í gæsluvarðhaldi. Í flestum tilvikum komust kortasvikararnir yfir upplýsingar um debetkort en sú fjárhæð sem tókst að svíkja út í heildina er ekki há.

Valitor gerði strax ráðstafanir til þess að tryggja að þeir korthafar sem í hlut eiga yrðu ekki fyrir tjóni. Fylgt var sérstöku öryggisferli sem fer í gang ef mál af þessu tagi koma upp, en Valitor hefur fyrst íslenskra fjármála- og greiðslukortafyrirtækja hlotið alhliða öryggisvottun sem sérstaklega er ætlað að taka á kortasvikum.

Unnið er að því hér á landi að efla öryggi kortaviðskipta með innleiðingu örgjörva í öll greiðslukort ásamt tilheyrandi örgjörvalesurum hjá bönkum og söluaðilum. Þessum aðgerðum er m.a. ætlað að koma í veg fyrir afbrot af því tagi sem átti sér stað um helgina,“ segir í tilkynningunni.

Afrituðu yfir þúsund kort

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert