Íhugaði að forða sér

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins mætir í landsdóm.
Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins mætir í landsdóm. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði að margt hefði verið að hjá Fjármálaeftirlitinu þegar hann tók við starfi forstjóra árið 2005 og það hefði flögrað að sér að forða sér.

Jónas kom fyrir sem vitni í Landsdómi í morgun. Hann var beðinn að lýsa stöðu Fjármálaeftirlitsins og hvort það hefði verið nægilega öflug stofnun. Jónas sagði að það hefði ekki verið nægilega öflug stofnun á þessum tíma, sérstaklega borið saman við stofnunina eins og hún er í dag.

Jónas sagði að þegar hann tók við FME hefðu um 35 manns starfað þar, starfsmannavelta verið geysileg og upplýsingakerfið lélegt. Sú hugsun hefði flögrað að sér að forða sér, en hann hefði valið þann kost að takast á við að byggja stofnunina upp. Hann hefði lagt áherslu á að efla upplýsingakerfið, en eftir á að hyggja hefði stofnunin ekki vaxið nægilega hratt.

Jónas orðaði það svo að árið 2008 hefði stofnunin verið kominn á „byrjunarpunkt“. Erlendir aðilar hefðu þá gefið FME góða einkunn. Um haustið, þegar neyðin var stærst, hefði FME fengið það stóra verkefni að framkvæma neyðarlögin og það hefði tekist vel.

Jónas sagði að á þessum tíma hefðu menn unnið mjög mikið. Sonur sinn hefði á þessum tíma sagt við sig: „Pabbi, þú ert aldrei heima nema á morgnana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert