Norðmenn íhuga „olíuævintýri" Íslands

Drekasvæðið.Útboð sérleyfa til olíurannsókna á Drekasvæðinu rennur út 2. apríl.
Drekasvæðið.Útboð sérleyfa til olíurannsókna á Drekasvæðinu rennur út 2. apríl. mbl.is/KG

Íslendingar eru að búa sig undir olíuævintýri. Þannig kemst norski viðskiptafréttavefurinn E24 að orði, en talsvert er gert úr olíuleit Íslendinga á síðunni í dag. Jafnframt er haft eftir verkefnisstjóra olíuleitarinnar að Íslendingar þurfi að halda sig á jörðinni.

„Nú ætlar Ísland að verða olíuþjóð,“ segir á vef E24. Þar er rætt við Þórarin Arnarson, verkefnisstjóra olíuleitar hjá Orkustofnun, sem segir niðurstöðurnar sem rannsóknir hafi gefið til þessa lofa mjög góðu. „Við erum mjög bjartsýn.“

Hinn 2. apríl næstkomandi rennur út frestur til útboðs á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Þetta er í annað sinn sem rannsóknarleyfi er boðið út, síðast sóttu tvö norsk fyrirtæki um, Aker Exploration og Sagex Petroleum, en bæði hættu við stuttu síðar. E24 segir að nú séu Íslendingar vongóðir um að betur gangi. Olíuverð sé aftur komið í yfir 100 dali á tunnuna og nýjar jarðfræðirannsóknir treysti þá von að olíu og gas sé líka að finna við Ísland.

Haft er eftir Þórarni að Íslendingum sé nú mjög umhugað um þróun mála á Drekasvæðinu og hann hafi nýlega séð sig tilneyddan að mæta í fjölmiðla til að draga aðeins úr væntingum almennings. „Sumir hér á Íslandi hafa leyft bjartsýninni að hlaupa með sig í gönur. Það er mikilvægt að við höldum jarðtengingu,“ segir Þórarinn. Fyrr í morgun birtist á vef E24 viðtal við Hermann Guðmundsson, forstjóra N1, þar sem hann sagði að jafnvel lítill olíufundur myndi þýða svimandi tekjustreymi fyrir Ísland.

Einnig er rætt við sérfræðinginn Jørn Christiansen hjá olíuleitarfélaginu TGS. Sá segir að leifar olíu frá júratímanum sýni að það sé olíu að finna á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Bent er á að það séu því ekki bara Íslendingar sem hafi hagsmuna að gæta, því þetta þýði að Norðmenn gætu átt hlutdeild í þeirri olíu sem Íslendingar finni.

Þess má geta að í athugasemdum við fréttir E24 af hugsanlegum olíufundum við Ísland eru norskir lesendur almennt mjög jákvæðir og óska Íslendingum alls hins besta í leit sinni að olíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert