Vill kjósa um ESB í þingkosningum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Heiðar Kristjánsson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, leggur til að samhliða næstu þingkosningum fari fram atkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Hún segir það skoðun sína að klára viðræðurnar en þar sem pólitískur vilji er óljós sé best að þjóðin skeri úr um framhaldið.

„Heppilegast er að fyrir liggi skýr pólitískur vilji í hverju máli fyrir sig. Á það ekki síst við í þeim stóru viðfangsefnum sem við okkur blasa hverju sinni. Hvað aðildarviðræðurnar varðar er ljóst að hið pólitíska bakland vantar. Það sjá allir,“ segir Þorgerður Katrín í pistli á vefsvæði sínu.

Þorgerður segir einnig ljóst að ríkisstjórn með tvær skoðanir á Evrópumálinu geti ekki klárað samninga þó hún hafi komið þeim af stað. „Það er augljóst að samningar verða ekki kláraðir fyrir næstu kosningar, það er ef við gefum okkur að menn vinni af heilindum að því að ná skynsamlegri niðurstöðu fyrir Ísland. Því er möguleiki að við næstu stjórnarmyndun verði aðildarviðræðum „slaufað“ og um leið því tækifæri fyrir þjóðina og þingið að segja álit sitt á samningnum. Því er ég ósammála.“

Hún segir betra að fá skilaboðin frá þjóðinni sjálfri, lýkur pistli sínum á þeim orðum, að umrædd leið sé í ágætu samræmi við samþykkt síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert