„Útúrsnúningar og afneitun“

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is

Snarpar umræður fóru fram á bæjarstjórnarfundi Hafnarfjarðar í gær um Eftirlaunasjóð starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar. Tókust þar á bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og af fundargerð að dæma virðist engin niðurstaða hafa fengist.

„Útúrsnúningar og afneitun einkennir umræðu fulltrúa Samfylkingarinnar um málefni Eftirlaunasjóðs starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar. Staðreyndin er sú að rekstur og afkoma sjóðsins fær afar slæma útreið í skýrslu úttektarnefndar um lífeyrissjóði á Íslandi sem birt var nýlega og er sjóðurinn sá sem tapaði næst mestu allra lífeyrissjóða í landinu á síðustu árum,“ segir í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks en einnig að engar útskýringar hafi fengist hjá fulltrúum Samfylkingar á því hvers vegna ítrekaðar og viðvarandi athugasemdir eftirlitsaðila voru virtar að vettugi. „Ljóst er að vinnubrögð hafa verið látin viðgangast sem alls ekki ætti að líðast við umsýslu á opinberu fjármagni eins og raun ber vitni í þessu tilviki.“

Guðmundur Rúnar Árnason lagði í kjölfarið fram bókun fyrir hönd Samfylkingar og Vinstri grænna. Í henni segir að umfjöllun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins undirstriki mikilvægi þess að fengin verði úttekt á því hversu mikið af 5,4 milljarða skuldbindingu sé tilkomið vegna þess að 10% iðgjald sé langt frá því að standa undir lögvörðum réttindum sjóðfélaga og hve stór hluti er til kominn vegna ákvarðana sjóðsstjórnar. „Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins setja sig upp á móti slíkri samantekt, enda hentar það ekki til upphrópana og lýðskrums að raunveruleg staða ESH og þróun áfallinna lífeyrisskuldbindinga bæjarsjóðs liggi fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert