Danir ráða ekki við makríldeiluna

Nánast engar líkur eru taldar á því að Danir ráði við að opna á aðildarviðræður Evrópusambandsins við Íslendinga um sjávarútvegsmál. Þetta kemur fram á vef Jóns Bjarnasonar, þingmanns Vinstri grænna.

„Til stóð að opna á viðræður sl. haust en því hefur ítrekað verið frestað og nú síðast vegna deilna um rétt Íslendinga til makrílveiða. Danir fara með formennsku í ESB þar til í júnílok á þessu ári og höfðu lýst áhuga sínum að opna á viðræður. Sú tímaáætlun sem gefin var út í upphafi umsóknarinnar um viðræður er löngu runnin út í sandinn.

Ríkisstjórn Dana hefur mjög tæpan meirihluta á þingi og fellur ef Færeyingar og Grænlendingar hætta stuðningi við hana,“ skrifar Jón Bjarnason.

Færeyski þingmaðurinn Sjurður Skaale hefur sagt opinberlega við fjölmiðla að verði Færeyingar knúðir til samninga um makrílveiðar með þvingunum af hálfu ESB muni Færeyingar hætta stuðningi við stjórnina sem þar með fellur. Það eru því ekki aðeins Íslendingar sem hafa mætt óbilgirni og hótunum frá ESB vegna makrílveiðanna heldur hefur Færeyingum jafnframt verið hótað víðtækum viðskiptabönnum vegna makrílveiða þeirra, segir Jón.

„ESB hefur sett skilyrði fyrir samningum við Íslendinga um makrílveiðar sem eru með öllu óaðgengilegar og myndu kosta þjóðarbúið milljarða í töpuðum tekjum. ESB fylgir óbilgirni sinni eftir með hótunum um víðtækar viðskiptaþvinganir.

Sjávarútvegsráðherra Íra segir það sína skoðun að ekki eigi að opna á aðildarviðræður við Íslendinga um sjávarútvegsmál fyrr en Íslendingar hafa beygt sig fyrir kröfum ESB í makríldeilunni. Fleiri forystumenn í ESB löndum hafa lýst sömu skoðun og krafist eftirgjafar Íslendinga.

Danska ríkisstjórnin stendur mjög veikt í þessum málum því meirihluti hennar styðst við þingmenn Grænlendinga og Færeyinga á danska þjóðþinginu. Þingmenn þeirra, geta velt ríkisstjórninni hvenær sem er, gangi ESB á hagsmuni landanna og þeir munu vafalaust ekki hika við að gera það ef á reynir.

Samkvæmt FiskerForum.com hefur færeyski þingmaðurinn Sjúrður Skaale bent ráðherrum i ríkisstjórn Danmerkur á þessa stöðu, ef hún lætur undan kröfum ESB um að beita Færeyinga ofríki og viðskiptaþvingunum til hlýðni í makríldeilunni.

Þá má nefna enn frekar að Grænlendingar standa í stríði við ESB vegna banns á verslun með selskinn innan ESB og hafa kært bannið til WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Íslendingar hafa stutt kæru Grænlendinga formlega á alþjóðavettvangi, reyndar við lítinn fögnuð ESB,“ skrifar Jón á heimasíðu sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert