„Forsætisráðherra talar út og suður“

Þorsteinn Pálsson
Þorsteinn Pálsson mbl.is/Ragnar Axelsson

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, segir að forsætisráðherra sem tali út og suður nái aldrei þjóðarsátt.

Þetta kom fram í máli Þorsteins í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Vísaði Þorsteinn þar til greinar sem hann ritaði í Fréttablaðið í gær um nýafstaðið flokksþing Samfylkingarinnar og orða Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra þar.

„Forsætisráðherrann hóf baráttuna með því að kalla eftir þjóðarsátt um upptöku evru og inngöngu í Evrópusambandið. Enginn annar forsætisráðherra hefur jafn oft og á jafn skömmum tíma kallað eftir þjóðarsátt um öll möguleg mál. Að sama skapi hefur enginn staðið jafn lengi í sömu sporum og talað upp í vindinn,“ skrifar Þorsteinn.

Þorsteinn og Sigurjón M. Egilsson, umsjónarmaður þáttarins, ræddu einnig sjávarútvegsmálin í þættinum en líkt og fram kom á mbl.is á föstudagskvöldið og í gær verða gerðir nýtingarsamningar við kvótahafa til 20 ára með ákvæði um framlengingu að þeim tíma liðnum nái nýtt kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar fram að ganga á vorþinginu. Þetta hefur Morgunblaðið eftir öruggum heimildum.

Veiðigjald verður hækkað verulega en fer að hluta eftir afkomu útgerða. Gert er ráð fyrir að það renni allt í ríkissjóð en það hefur verið umdeilt í sjávarbyggðum. Þá verður notast við lægri viðmið í bolfiski en uppsjávarfiski.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert