„Það sem ég hefði viljað vita “

Matt Long var lítið hrifinn af Bláa lóninu en það …
Matt Long var lítið hrifinn af Bláa lóninu en það var margt annað sem heillaði hann á Íslandi mbl.is/Bláa lónið

Ferðalangurinn Matt Long nefnir á bloggsíðu sinni, Landloper, fimm hluti sem hann hefði viljað vita áður en hann heimsótti Ísland í fyrsta skipti.

Bloggið ritar hann í febrúar þegar hann var nýkominn frá óvæntri ferð til Íslands. Þar sem um óvænta ferð var að ræða vissi hann lítið um landið áður en hann kom þrátt fyrir að hafa verið með ýmsar hugmyndir í kollinum um land og þjóð.

1. Það fyrsta sem hann nefnir er hversu auðvelt er að fara til Íslands. Ferðalagið sé styttra til Íslands af austurströnd Bandaríkjanna en flugferð til Seattle á vesturströndinni.

2. Óhefðbundinn matur. Þar nefnir hann hval og hákarl sem dæmi og súrmeti sem honum finnst algjörlega óþarft að halda að ferðamönnum. 

3. Bláa lónið er lélegt. Hann segist hreinlega ekki skilja hvers vegna svo mikið sé gert úr Bláa lóninu sem er ekki einu sinni náttúrulegt heldur afleiðing orkuvers í næsta húsi. Ef horft sé fram hjá orkuverinu hvarflar hugurinn að markaðssetningunni á Bláa lóninu. Svo sé komið að allir ferðamenn sem komi til Íslands telji sig vonlausa ef þeir fara ekki í lónið. Fleiri heimsæki það á hverju ári en öll íslenska þjóðin til samans.

4. Smæð bæja. Hann segist hreinlega ekki hafa gert sér grein fyrir því hversu fáir Íslendingar eru og Reykjavík minni helst á bæ, ekki borg. Reykjavík sé afar geðþekkur bær. Þessa daga sem hann dvaldi hér sá hann aldrei lögreglu né öryggisgæslu. Nánast engir glæpir séu á Íslandi og afar fáir fangar í fangelsum. Ekkert mál sé að heimsækja Alþingi og Stjórnarráðið og engin merki um öryggisgæslu þar. Hann segir að það hafi því verið endurnærandi að heimsækja Ísland laus við allt stress og ótta og hann hafi notið hverrar stundar á Íslandi í botn.

5. Myrkur og rigning er ekki alltaf hræðilegt. Hann segist vita að það sé ekki alltaf rigning og myrkur á Íslandi en þegar hann var þar um miðjan vetur hafi staðan verið þannig. En það hafi bara alls ekki verið svo slæmt.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert