Eineltismál innan slökkviliðsins

Slökkvilið að störfum. Myndin er úr safni.
Slökkvilið að störfum. Myndin er úr safni. mbl.is/Brynjar Gauti

Eineltisvandi er nú innan Slökkviliðsins á Akureyri. Ófullnægjandi starfsandi bitnar á öllum liðsmönnum og hefur milljónum verið varið í sálfræðikostnað slökkviliðsmanna í þeim tilgangi að leysa deilur. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir lausna leitað. Vandinn hafi verið grasserandi í nokkur ár. Frá þessu er greint í Akureyri vikublaði sem kom út í morgun.

Í blaðinu segir að Þorbjörn Guðrúnarson sem tók við starfi slökkviliðsstjóra árið 2006 vilji ekki tjá sig um málið.

Blaðið spurði Eirík Björn bæjarstjóra hvað honum fyndist um að milljónir af skattfé þyrfti til að takast á við vandann. Hann sagði mestu máli skipta að leysa vandann og að lausnir kostuðu peninga. Málið væri á viðkvæmu stigi og þess vegna vildi hann sem minnst tjá sig að svo stöddu.

Slökkviliðsmaður segir í samtali við blaðið að „hörmungarmórall“ sé innan liðsins og að um það verði að fjalla.

Akureyrarbær rekur nú alfarið slökkvilið Akureyrar en liðið er einnig með stóran verktakasamning við ríkið.

Allir sem blaðið ræddi við voru sammála um að þótt málið væri erfitt væri almannaheill ekki í hættu. Í neyð settu menn deilur til hliðar.

„Hins vegar bitnar svona ástand á öllum hópnum, ekki bara þeim sem í hlut eiga og þess vegna verður að leysa vandann sem fyrst,“ segir Eiríkur Björn bæjarstjóri við Akureyri vikublað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert