Líklega er ég bara sannur Íslendingur

Stefanía Hjartardóttir hjúkrunarfræðingur
Stefanía Hjartardóttir hjúkrunarfræðingur Árni Sæberg

Mikið er rætt og ritað um erfiðleika samtímans en það vill gleymast að á hverjum tíma hefur fólk háð lífsbaráttuna og hún hefur ekki alltaf verið mild þótt ekki kæmi til bankahrun. Stefanía Hjartardóttir hjúkrunarfræðingur fæddist og ólst upp í Kópavogi og má segja að uppvöxtur hennar og bæjarins hafi fylgst á vissan máta að. 

Við vorum víst fátæk þegar ég var barn en fundum aldrei fyrir því – fannst við þvert á móti rík. Við systkinin fengum til dæmis alltaf myndarleg páskaegg. Það kom nú einkum til af því að afi okkar, Guðmundur Rósinkar Magnússon, rak súkkulaðigerðina Fjólu á horni Vesturgötu og Ægisgötu í Reykjavík. Hann framleiddi konfekt, karamellur, kúlur og ýmislegt sælgæti – og ísinn hans var frægur,“ segir Stefanía Hjartardóttir hjúkrunarfræðingur. „Í jólagjöf fengum við jafnan „bland í poka“ í kramarhúsi inni í jólapakkanum frá afa og ömmu. Afi var ættaður úr Æðey og af Ströndum. Föðuramma mín, Lilja Hjartardóttir, dó ung. Sú amma sem ég þekkti, stjúpmóðir pabba, var Svanhildur Gissurardóttir frá Hvoli í Ölfusi,“ segir Stefanía.

„Ég fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 1956, sjötta í röð níu systkina. Foreldrar mínir leigðu þá Barmahlíð, sumarbústað í Kópavogshlíðum. Þau höfðu kynnst í Alþýðukórnum. Pabbi var þá fráskilinn og átti einn dreng, og mamma átti líka einn dreng, sem var á Thorvaldsens-vöggustofu fyrstu mánuðina, þar sem hún vann. Þau hófu búskap þegar sá bróðir minn var ársgamall. Faðir minn ólst upp í Reykjavík en móðir mín var frá Hornströndum, fæddist í Hælavík en flutti sex ára að Hesteyri. Hún átti tólf systkini, tvær systur hennar eru þekktar í íslenskri bókmenntasögu, Jakobína í Garði og Fríða Á. Sigurðardóttir. Mamma flutti 15 ára gömul til Reykjavíkur. Þótt einangrunin væri töluverð á æskuheimili hennar var heimamenntunin mikil. Afi og amma í Hælavík, Sigurður Sigurðsson og Stefanía Guðnadóttir, voru afskaplega duglegt fólk sem bjargaði sér vel, líka eftir að þau fluttu til Keflavíkur.“

Við Stefanía Hjartardóttir sitjum við stórt borðstofuborð og drekkum jurtate í marsbirtunni og sólin gyllir sjóinn fyrir framan Norðurbakka í Hafnarfirði. Þangað á fjórðu hæð er Stefanía nýlega flutt ásamt Helga Hrafnssyni eiginmanni sínum en þau eru nú orðin tvö, erill mannmargs heimilis er að baki, börn þeirra hjóna uppkomin. Stefanía hefur rétt áður sýnt mér ýmislegt sem hún hefur haft á prjónunum undanfarið, svo sem fjöldann allan af ullarhúfum sem eiga að fara á höfuð barna í Rússlandi, peysur á barnabörnin fimm og ýmislegt fleira. Ekki merkilegt finnst kannski sumum, en þeir vita ekki hvaða baráttu hún þurfti að heyja til þess að læra að prjóna upp á nýtt eftir slys og heilaáfall.

Lifað og leikið í suðurhlíðum

Stefaníu er þó efst í huga að segja frá þeim tíma þegar hún var lítil og spræk stelpa í Kópavoginum að alast upp í þéttum og stórum systkinahópi. Við skulum hverfa með henni inn í litla sumarbústaðinn Barmahlíð, sem enn stendur rétt við Digraneskirkju, umlukinn þéttum trjágróðri.

„Í trjánum kringum bústaðinn trúðum við krakkarni að Grýla og Leppalúði byggju. Margir sumarbústaðir voru þarna í grenndinni og trjágóður í kringum þá flesta. Foreldrar mínir leigðu Barmahlíð af konu sem enn býr þar, orðin vel fullorðin, en meðan við bjuggum í bústaðnum hafði hún til eigin nota lítið herbergi uppi í risi hans. Foreldrar mínir höfðu tvær stofur, eitt herbergi og eldhús fyrir sig og sex börn sín. Fyrst þegar ég man eftir mér var kamar en pabbi setti upp vatnssalerni, kalt vatn hafði verið leitt inn, pabbi lagði og rafmagn í bústaðinn. Við áttum heima þarna í nokkur ár. Þess má geta að á sumrin bjó auk okkar í bústaðnum kona með tvö börn í annarri stofunni.

Stutt er á milli okkar systkina í aldri og við lékum okkur af hjartans lyst í strjálbýlum suðurhlíðum Kópavogs og oft barst leikurinn að Skítalæknum svokallaða, sem í reynd heitir Hvammkotslækur. Sá lækur rennur fyrir neðan bústaðinn og systur mínar létu mig sigla í honum í bala og hentu mér á milli sín yfir hann. Ég lifði þetta allt saman af þótt í þennan læk væri þá veitt skólpi af ýmsu tagi úr bústöðunum í kring. Pabbi var verkamaður og vann í stálsmiðju í Reykjavík. Hann gekk á hverjum degi út á Hafnarfjarðarveg og tók strætó í vinnuna. Hann vann mikið.

Í Kópavoginum hjálpuðust allir að. Í bústaðnum okkar var enginn sími. Þegar mamma gekk með næstyngstu systur mína var hún búin að semja við vinkonu sína í nágrenninu um að ein af eldri systrum mínum mætti láta hana vita ef fæðingin færi af stað og pabbi væri ekki heima. Stelpan var þá fimm ára. Svo missti mamma legvatnið og sagði telpunni að fara til vinkonunnar og segja henni að vatnið væri farið. Hún tölti af stað og barði að dyrum hjá vinkonunni, en fannst skilaboðin eitthvað asnaleg og sagði í staðinn að það væri orðið olíulaust hjá okkur. Vinkonan varð eitt spurningarmerki, en áttaði sig fljótt á hvað um væri að vera og flýtti sér á vettvang.

Framúrstefnulegt heimilishald

Mamma og pabbi þóttu framúrstefnuleg í heimilishaldi sínu. Þegar pabbi kom heim úr vinnunni hjálpaði hann mömmu að sjóða bleiur sem höfðu safnast fyrir yfir daginn og hengdi þær svo út á snúru; það þótti ekki gott afspurnar að hann væri að sinna húsverkum – maður sem ynni svona mikið. Ég á mínar fyrstu minningar frá Barmahlíð en svo fluttum við á Hlíðarveginn, til hennar Ágústu Björnsdóttur sem rak Gróðrarstöðina Rein. Mamma vann í mörg ár á vorin í gróðrarstöðinni hjá Gústu. Maður hennar hét Loftur Ámundason. Hjá þeim hjónum leigðum við í nokkur ár litla íbúð. Á meðan við bjuggum þar byggðu foreldrar mínir hús fyrir fjölskylduna við Löngubrekku. Þegar pabbi var búinn að vinna á kvöldin labbaði öll halarófan frá Hlíðarveginum yfir í Löngubrekku, allir í röð, til að vinna í húsinu; hann fékk að vísu steypubíl til að steypa plötuna undir húsið en veggina steypti hann upp sjálfur og við krakkarnir og mamma naglhreinsuðum og gerðum ýmislegt annað sem til féll. Pabbi fékk líka góða hjálp við bygginguna frá ýmsum ættingjum sínum og nágrönnum – því í Kópavoginum hjálpuðust allir að. Kópavogsbær veitti lán fyrir efniskostnaði, sem var mikil og óvenjuleg hjálp fyrir frumbýlinga.

Lítið var um heitt vatn þegar ég var að alast upp. Við systkinin fórum þó í bað oftast einu sinni í viku, en þá urðu tveir að fara í sama vatnið. Olíukynding var og það varð að spara olíuna. Fyrir jólin var stundum ekki hægt að baða alla á aðfangadag af því vatnið varð svo kalt, en þeir sem urðu útundan fóru þá í bað á jóladag. Þótt mamma ynni utan heimilis þegar hún gat, meðal annars í síld og loðnu, saumaði hún jafnan á okkur öll föt og var alltaf búin að sauma jólafötin áður en skólaskemmtunin var í desember. Við fengum mjög mikið gefins af gömlum fötum, því við vorum svo mörg systkinin, mamma saumaði upp úr þessu þannig að við vorum aldrei í fötum sem ekki pössuðu. Og auðvitað notuðum við líka föt hvert af öðru. Við keyptum inn í versluninni Kópi við Bröttubrekku, þar fékkst allt mögulegt, líka efni – og sígarettur í lausu.

Á heimili foreldra minna var menntun mikils metin. Pabbi hafði stundað nám í Verzlunarskólanum en mamma var í skóla hjá KFUK eftir að hún kom suður. Þau voru bæði afar söngvin og sungu lengi frameftir í kórum. Það var ríkt menningarlíf á æskuheimili mínu, mikið lesið og mikið sungið, pabbi spilaði á gítar og mamma söng með okkur. Við systkinin vorum öll hvött til að læra á hljóðfæri og ég lærði um tíma á píanó. Einu sinni á ári var farið með okkur öll í leikhús og við vorum daglegir gestir á bókasafninu.

Voru svæfð með söng

Við systkinin vorum svæfð með söng lengi vel. Á Hlíðarveginum vorum við allir krakkarnir saman í herbergi og á kvöldin komu annaðhvort mamma eða pabbi og sungu. Stundum var pabbi svo þreyttur að hann sofnaði, þá vöktum við hann bara til að fá hann til að syngja svolítið meira.

Þegar yngsta systirin fæddist var mér og næstyngstu systur minni komið fyrir hjá mágkonu mömmu; þá var ég sex ára. Við vorum sendar inn um kvöldið til að hátta en svo kom enginn að syngja með okkur. Ég sendi systur mína fram til að athuga hvernig stæði á þessu. Hún kom aftur inn með þau skilaboð að við værum orðnar allt of stórar til að vera svæfðar. Þetta var mín fyrsta sorg í lífinu. Ég á skemmtilega gamla upptöku með söngstund fjölskyldunnar. Þar er mamma að syngja fyrir okkur systkinin og með okkur. Við sungum öll möguleg lög saman. Svo heyrist þegar við systurnar förum að rífast um að vera með yngstu systurina – þá fór mamma að syngja og við þögnuðum strax. Mamma söng alltaf ef við vorum óþekk.

Þótt plássið væri lítið og við værum svona mörg man ég ekki eftir að það væru stórvægilegir árekstrar á heimilinu. Samkomulagið á milli okkar systkinanna var auðvitað upp og ofan – en ef manni lenti saman við einhvern var bara skipt um og farið að leika við eitthvert annað systkini. Maður hafði alltaf einhvern til að leika við og var aldrei einn. Það var líka mikið af krökkum í nágrenninu og oft voru stórir barnahópar úti að leika sér. Við fórum gjarnan niður að Lundi að hjálpa til við beljurnar, fórum í skógræktina á leynifélagsfundi og í hverfastríð, svo var maður þarna nálægt með gæsir og kalkúna sem við krakkarnir höfðum gaman af að fylgjast með. Á heimilinu hjá okkur voru alltaf kettir og oft kettlingar, því þá voru læður ekki komnar á pilluna. Einu sinni kom bróðir mömmu t.d. með fullan bala af fiski sem hann hafði veitt. Hann kom með þetta seint um kvöld og morguninn eftir átti að ganga frá fiskinum, en þegar mamma vaknaði var balinn tómur. Það þótti henni einkennilegt. Svo fór hún út í búð að kaupa mjólk. Þá hitti hún ýmsa nágranna sína sem þökkuðu henni kærlega fyrir fiskinn. Þá hafði yngri systir mín drifið sig á fætur eldsnemma um morguninn og gefið fólkinu í kring allan fiskinn. Það var ekki hægt að skamma hana fyrir þetta, hún hafði jú verið stranglega áminnt um að vera hjálpsöm við nágrannana.

Við systkinin vorum öll send í tímakennslu til að læra að lesa hjá konu á Bjarnhólastígnum. Svo fórum við í sjö ára bekk í Kópavogsskóla, þar réð ríkjum Magnús Kristinsson skólastjóri. Skólastarfið var alla tíð skemmtilegt og mikið leikið sér í frímínútum. Allt í kringum skólann voru móar og við lékum okkur þar og í hálfbyggðum byggingum. Oft fórum við líka í ferðir og höfðum þá nesti með okkur. Skólinn var stútfullur af krökkum og til að auðvelda heilsugæslu voru öll heimili skylduð til að gefa börnunum njálgmeðal á haustin. Ein eldri systir mín var einu sinni send í apótekið til að kaupa njálgmeðal fyrir tíu manns. Henni fannst það svolítið óþægilegt.

Við okkur systkinin var aldrei rætt um peningamál eða annað, við vorum algerlega áhyggjulaus. Aðeins einu sinni, á kreppuárunum um 1968, man ég eftir að mamma sagði að við fengjum engar jólagjafir. Þá var pabbi atvinnulaus. Okkur fannst þetta leiðinlegt. En þegar til kom fengum við samt sem áður jólagjöf; mamma saumaði á okkur húfur úr kanínuskinni, laumaðist til þess og faldi húfurnar heima hjá vinkonu sinni. Ekki veit ég hvernig hún náði í þetta kanínuskinn. Aldrei man ég eftir öðru en við hefðum nóg að borða, en oft var slátur, hafragrautur og grjónagrautur. Og snemma lærðum við systurnar að elda og vaska upp þegar mamma var að vinna og sjálf fórum við fljótt að vinna við það sem til féll, pökkuðum kringlum, seldum merki og bárum út blöð.

Þannig liðu æskuárin við mikla félagslega auðlegð. Þegar ég fór að heiman 21 árs með þriggja ára dóttur mína hafði ég aldrei verið ein. Og mér fannst ég mjög ein þótt ég væri með hana hjá mér. Ég eignaðist einkadóttur mína 19 ára gömul, en var ekki í sambandi við barnsföður minn. Mamma veitti mér allan þann stuðning sem mögulegt var en ég fann eigi að síður fyrir fordómum – ekki frá systkinum mínum, heldur umhverfinu. Föðuramma mín sagði við mig þegar hún kom í fermingarveislu yngsta bróður míns: „Ertu trúlofuð?“ „Nei,“ sagði ég. Þá sagði amma: „Aumingja Hjörtur.“ Líklega hefur henni fundist pabbi hafa nóg á sinni könnu.

Ég ákvað snemma að læra hjúkrun og var að byrja í hjúkrunarnáminu þegar ég varð ófrísk. Fyrstu fimm mánuði meðgöngunnar var ég í heimavist Hjúkrunarskólans. Skólastjóranum þótti ekki viðkunnanlegt að vera með óléttan hjúkrunarnema í skólanum og vildi að ég hætti í námi. En ég vildi halda áfram og fékk því framgengt. Eftir jólin dvaldi ég því heima og sótti skólann þaðan. Telpan fæddist níu mánuðum eftir að ég hóf námið. Þegar ég lá á sæng kom kona sem var að vinna að rannsókn á aðstæðum einstæðra mæðra. Hún spurði nærgöngulla spurninga, svo sem um samfarir og samband við barnsföður. Þetta stakk mig mjög. Eftir að barnið var fætt hætti mamma að vinna til að passa fyrir mig svo ég gæti haldið áfram náminu. Eftir það sinnti ég bara skólanum og barninu. Annað var ekki inni í myndinni. Hjúkrunarnámið var þá þrjú ár og teknar vinnutarnir inn á milli.

Þegar telpan var þriggja ára og ég orðin hjúkrunarkona fékk ég starf á Húsavík og við mæðgur fluttum þangað. Það voru mikil viðbrigði sem fyrr sagði. En ég fékk góð laun og ágætt húsnæði og var ánægð með það. Á þeim tíma var hægt að fara út á land, fá leikskólapláss fyrir barnið og hafa það prýðilegt. Þetta var árið 1979. Þegar ég fór að vinna á sjúkrahúsinu á Húsavík fannst mér ég fyrst fara að læra. Ég var ráðin á fæðingar- og skurðstofudeild, en einnig tók ég aukavaktir á öldrunardeild sjúkrahússins. Ég fékk því þarna mjög víðtæka reynslu, fannst gaman að gera gagn og líkaði vel að vera innan um svona margt fólk. Ég naut þess og að geta nýtt mér menntun mína. Á þessum árum voru sjúkrahús vel mönnuð og með mér starfaði vel menntað fólk. Á Húsavík var ég í tvö ár, þá réð ég mig á sjúkrahúsið á Akranesi, þar sem ég vann í 13 ár. Það gerði ég til að dóttir mín fengi að alast upp í sama umhverfinu og þyrfti ekki að skipta um skóla. Ég ákvað þegar ég átti von á barni að ég skyldi helga því líf mitt, að það fengi góða samfellda menntun og byggi við góð skilyrði. Það yrði nógur tími til að hugsa um eitthvað annað síðar. Ég ól Guðrúnu Rósu upp á svipaðan máta og ég hafði sjálf verið alin upp. En tímarnir voru samt aðrir, ég talaði miklu meira við hana um samfélagið en tíðkaðist þegar ég var krakki. Öll þessi ár vann ég mikla aukavinnu en þá vinnu vann ég í fríum og á öðrum stöðum til að fá tilbreytingu í lífið.

Svo kom að því að við mæðgur vorum tilbúnar að breyta til. Frá Akranesi fluttum við til Holbæk í Danmörku. Ég var þá búin að sækja um að komast í hjúkrunarháskóla þar ytra. Ég hafði fljótlega áttað mig á að ég hafði áhuga á að stjórna en stjórnunarnám var þá ekki í boði á Íslandi og nýjung í Danmörku. Ásókn var mikil í þetta nýja nám og danskir hjúkrunarfræðingar gengu fyrir. Ég fékk því ekki inngöngu, sótti aftur um árið eftir en fékk heldur ekki inngöngu. Þá fór ég heim til Íslands aftur, reynslunni ríkari. Mér fannst ágætt að koma heim, því ég var svolítið einmana í Danmörku; þar var allt öðruvísi. Þó reyndi ég að aðlagast, fór t.d. í kór – en ég var ekki á djamminu og kynntist því fáum. Eignaðist samt góða vinkonu þar ytra. Í Danmörku áttaði ég mig á hve vel menntaðir íslenskir hjúkrunarfræðingar eru.

Rétt áður en ég fór heim var mér boðið starf á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, sem ég þáði, ég átti að byrja í september en kom um sumarið. Fór því til Akureyrar í millitíðinni til að vinna þar á sjúkrahúsinu. Mér líkaði stórvel á Akureyri og hefði ekki farið þaðan nema af því ég var búin að ráða mig syðra. Það var þó eins gott að ég fór að vinna á St. Jósefsspítalanum, því í Hafnarfirði hitti ég minn heittelskaða, sem ég giftist 1998. Hann var fráskilinn og átti þrjá syni; ég eignaðist því þrjá elskulega stjúpsyni. Saman eigum við Helgi fimm yndisleg barnabörn sem við sinnum mikið. Auk þess tókum við hjónin að okkur um tíma að vera stuðningsfjölskylda og í framhaldi af því telpu í fóstur sem var hjá okkur í níu ár. Í hönd fóru því erilsöm ár.

Sumarið 2000, þegar fósturdóttirin kom til okkar, ákváðum við hjónin að flytja til Stokkseyrar. Þar gerðist ég deildarstjóri á Kumbaravogi. Við leigðum íbúðina okkar í Hafnarfirði. Helgi var á sjónum og þetta hentaði okkur prýðilega. Mér fannst skemmtilegt að vinna á Kumbaravogi og starfið þar vel uppbyggt. Við vorum þó aðeins tvö ár á Stokkseyri.

Bílvelta á Suðurstrandarvegi

Ég hafði verið lasin svolítinn tíma, en seint um haustið, 13. nóvember 2000, velti ég bílnum á Suðurstrandarvegi og slasaðist talsvert, meðal annars á mjöðm. Ég fór að vinna viku síðar og hélt að þetta væri yfirstaðið, en það var aldeilis ekki. Við rannsóknir kom í ljós að ég hafði fyrir slysið fengið blóðtappa í höfuðið og annan slíkan fékk ég skömmu síðar. Þetta saman olli því að ég varð að hætta að vinna. Það varð mér gríðarlegt áfall. Ég ætlaði ekki að trúa því að svona væri komið fyrir mér. Ég hélt að það dygði að minnka vinnu og gerði það og raunar allt sem ég gat til að ná mér. Ég hafði sem unglingur verið leiðsögumaður á Hornströndum og var vön útiveru, og nú tók ég að ganga og hreyfa mig mjög mikið, ég fór líka í sjúkraþjálfun og sund. En smám saman rann upp fyrir mér að þetta ástand mitt var komið til að vera. Ég var með mikla verki frá hálsi og upp í höfuð auk þess sem tvísýni og ýmislegt annað hrjáði mig, einkum einbeitingarskortur. Ég gat ekki lengur lesið mér til gagns. Það er ekki hægt að vinna sem hjúkrunarfræðingur og geta ekki lesið eða munað nöfn. Ég hætti líka alveg um tíma að geta gert handavinnu, svo sem að prjóna. Mér tókst þó að ná þeirri færni upp aftur með því að byrja á að prjóna liggjandi. Þannig náði ég samhæfingu handa og augna. Saumaskapurinn hefur reynst mér erfiðari. Ég átti overlock-vél, en seldi hana. Gat ekki lært á hana aftur, í hvert sinn sem ég tók hana upp var hún eins og ný fyrir mér. Ég þjáðist líka af þreytu, sem enn hellist yfir mig á ólíklegasta tíma. Ég reyndi að fara í nálastungur, hnykkingar, sundleikfimi og fleira en allt kom fyrir ekki – ég varð öryrki. Fjörutíu og fjögurra ára gömul var færni mín verulega skert.

Í kjölfar þessa fluttum við aftur til Hafnarfjarðar og maðurinn minn hætti á sjónum. Ég hef að mestu getað séð um heimilið með því að hvílast þegar ég þarf. En þreytan og einbeitingarskorturinn hefur ekki yfirgefið mig. Þótt ég hafi tapað miklu af þeirri færni sem ég áður bjó yfir hef ég fengið ýmislegt í staðinn. Þegar ég hætti að geta lesið blöðin fór ég að hlusta á útvarp og hljóðbækur. Smám saman gat ég þó lesið aftur. Ég reyni að fylgjast með þjóðmálunum en á erfitt með að muna hvað gerist frá degi til dags. Það er því margt sem er nýtt fyrir mér á hverjum degi. Nú er ég að vinna hlutavinnu á Sólvangi, en veit ekki hvort það getur gengið til lengdar. En það er mjög skemmtilegt og virðist mátulega mikið fyrir mig.

Það er erfitt fyrir fólk á góðum aldri að taka því að verða öryrki. Í raun leið hátt á þriðja ár þar til ég áttaði mig til fulls á þessu. Ég fann fyrir þunglyndiseinkennum og depurð þann tíma, en hélt mínu striki, fór áfram í sund, leikfimi, sjúkraþjálfun, göngur og allt sem mér datt í hug. Svo varð ég að kyngja því að ég hafði ekki peninga fyrir þessu og það bar heldur ekki þann árangur sem ég vonaðist eftir. Þetta bætti, en læknaði ekki. Blóðtappamyndunin, sem er helsta ástæðan fyrir örorku minni, er ættgeng og hefur orðið vart hjá mörgu af mínu móðurfólki. Þetta tengist hjarta- og æðasjúkdómum. Ég var snemma greind með of háan blóðþrýsting og of hátt kólesteról, en þar sem ég lifði svo heilbrigðu lífi var ekkert gert í málinu. Hins vegar veit ég ekkert hvort það hefði einhverju breytt þótt ég hefði farið á lyf fyrr.

Ég sannreyndi þegar ég varð formlega öryrki að það kerfi er mjög flókið. Jafnvel starfsfólk sumt á erfitt með að átta sig á því og upplýsingar um þessi mál liggja ekki á lausu. Það sem hefur hjálpað mér mest er hvað ég á góðan lífeyrissjóð og var búin að vinna lengi áður en ég veiktist – 25 ár. Úr Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga fæ ég um það bil dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga.

Þrátt fyrir örorkuna er ég þokkalega virk. Ég er t.d. í félagsstarfi í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og svo hittumst við systkinin mjög oft, að meðaltali tvisvar til þrisvar í viku. Við erum fimm systurnar hér á höfuðborgarsvæðinu og hjálpumst mikið að. Það er ríkidæmi að eiga stóra fjölskyldu. Þar er ég heppin, það eru ekki allir öryrkjar í þeim sporum – þeir eru oft mjög einangraðir. Mér finnst verst að geta ekki farið meira í ferðalög, mér fannst svo gaman að ferðast. Það er algerlega vonlaust fyrir mig.

Trúin hefur hjálpað

Það hefur hjálpað mér þegar erfitt hefur verið að ég er trúuð. Ég ólst upp við kirkjustarf, það var í boði þá fyrir krakka og unglinga og við systkinin tókum ríkan þátt í slíku starfi. Auk þess vandist ég því að fara með bænir heima. En meðan ég var barn fannst mér ég ekki eiga greiða leið að Guði. Það var ekki fyrr en eftir að ég varð fullorðin að ég fór að geta snúið mér beint til hans. Ég trúi á framhaldslíf og líka að maður eigi fyrir höndum líf með Guði. Ég hef fengið mikla bænheyrslu hjá honum og ég hef farið til spámiðils sem mér finnst ég hafa fengið góðar leiðbeiningar frá. Kannski finnst fólki þetta misvísandi – en líklega er ég bara sannur Íslendingur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert