Tilvitnun í Ward brot á þingsköpum?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nú segjast þingmenn úr Vg og Samfylkingu vitna beint í orð Tim Ward, verjanda Íslands í Icesave-málinu, af fundi í utanríkismálanefnd og það af fundi sem sérstaklega var tekið fram að væri háleynilegur,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag og rifjar upp 19. grein þingskaparlaga þar sem segi að óheimilt sé að vísa til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum þingnefndarfundi án leyfis viðkomandi.

Sigmundur vísar þar til tilvitnana í Ward um að viðbúið væri að framkvæmdastjórn ESB myndi óska eftir aðild að málsókn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn Íslandi vegna Icesave-málsins en meðal annars vitnaði Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, til þess í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Þá vísaði Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, að sama skapi í Ward á heimasíðu sinni í dag en hann á einnig sæti í utanríkismálanefnd þingsins.

„Fyrir nokkrum vikum varð þingmaður sakaður um að brjóta þessa grein þingskapa með því að lýsa upplifun sinni af nefndarfundi. Þó hafði viðkomandi ekki vitnað í orð nokkurs manns,“ segir Sigmundur og vísar þar til þess þegar Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, var sökuð af stjórnarþingmönnum um að brjóta gegn áðurnefndri grein á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

„Ég minnist þess reyndar ekki að Ward hafi sagt það sem eftir honum var haft (og það breytir svosem engu um málið) en ég get ekki leiðrétt ummæli nefndarmannanna enda gildir trúnaður um það sem fram fór á fundinum,“ segir Sigmundur ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert