„Hvurslags fyrirhyggja er þetta eiginlega?“

Pétur H. Blöndal alþingismaður.
Pétur H. Blöndal alþingismaður. mbl.is/Ómar

„Hvernig stendur á því að þetta opinbera fyrirtæki veit ekkert af því að það á að fara að loka netsambandi við útlönd og ríkissjóður þurfi allt í einu að rjúka til í apríl, fjórum mánuðum eftir samþykkt fjárlagafrumvarps og bjarga málum?“ spurðu Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins.

Tilefni ummælanna voru fréttir fjölmiðla um að ríkið hafi þurft að koma Farice ehf., sem rekur samnefndar sæstreng á milli Íslands og Evrópuríkja fyrir netsamband, til bjargar með notendasamningi upp á 355 milljónir króna á þessu ári.

Vísaði Pétur til þess að ríkissjóður ætti í gegnum Landsvirkjun og sjálfan sig meirihluta í Farice ehf. Spurði hann hvernig það hefði gerst að fyrst hafi uppgötvast í apríl að loka ætti á netsambandið í gegnum sæstrenginn vegna lausafjárvanda fyrirtækisins. „Hvurslags fyrirhyggja er þetta eiginlega?“ spurði Pétur.

Beindi hann þeirri fyrirspurn til þeirra þingmanna sem sætu eiga í fjárlaganefnd hvort málið hafi verið rætt eitthvað innan nefndarinnar í tengslum við fjárlagagerðina að fara ætti út í það að „skuldabinda ríkissjóð til þess að bjarga netsambandi við útlönd.“

Enginn fulltrúi úr fjárlaganefnd kvað sér hljóðs til þess að svara spurningum Péturs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert