Neitaði að gefast upp

Bíllinn sem leitað var
Bíllinn sem leitað var

Fjölskylda Suðurlandi varð fyrir því óláni föstudaginn þrettánda að bíl hennar var stolið í Hafnarfirði. Þrátt fyrir mikla leit, meðal annars með því að auglýsa eftir bílnum á vefnum ofl., spurðist ekkert til bílsins þar til í dag þegar litli bróðir eiganda bílsins tók sig til og leitaði um allan Hafnarfjörð og gafst ekki upp fyrr en hann fann bílinn.

Bróðirinn, sem býr á Suðurlandi, ákvað í morgun að gera sér ferð í Hafnarfjörðinn og leita að bílnum enda afar óþægilegt fyrir bróður hans og fjölskyldu að vera án bílsins þar sem þau eiga þriggja mánaða gamalt barn.

Fjölskyldan hafði leitað til lögreglu en þar var þeim tjáð að um nytjastuld væri að ræða og lítið hægt að gera. Bíllinn myndi hins vegar koma í leitirnar eftir einhvern tíma og nefndi lögregla þrjá mánuði.

Fann bílinn, þjófinn og peninga sem voru í bílnum

En það var ekki nóg með að hann fyndi bílinn í dag heldur fann hann mann sem grunaður er um að hafa stolið bílnum við bílinn. Var bíllinn óskemmdur og ekki nóg með það þá voru þrjátíu þúsund krónur, sem voru geymdar í öskubakkanum á sínum stað. En bíllinn var á leið á verkstæði í viðgerð þegar honum var stolið og átti að nota peningana til að greiða fyrir viðgerðina. Telur bróðirinn fundvísi að þjófurinn hafi ekki fundið peningana enda ólíklegt að þeir hefðu verið enn í bílnum ef svo hefði verið. 

Hann hringdi í lögreglu sem kom á staðinn og tók skýrslu af meintum þjófi, sem er góðkunningi lögreglunnar. Hann segir málið í dag hafa verið nokkuð skondið þar sem meintum þjóf var sleppt að lokinni skýrslutöku. Hann var hins vegar ekkert að forða sér og fylgdist með þegar bílnum var komið í gang en hann var rafmagnslaus.

Aðspurður segir hinn fundvísi bróðir, sem vildi ekki koma fram undir nafni,  að hann sé vinsælasti maðurinn í fjölskyldu bróður síns í dag enda mjög bagalegt að verða fyrir því að bílnum sé stolið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert