Gagnrýna meðferð Kínverja á Tíbetum

Þingmenn Hreyfingarinnar.
Þingmenn Hreyfingarinnar. mbl.is

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um framferði kínverskra yfirvalda gagnvart tíbetsku þjóðinni. Lagt er til að Alþingi lýsi yfir þungum áhyggjum af vaxandi ofbeldi og kúgun kínverskra yfirvalda gagnvart tíbetsku þjóðinni, sem hefur meðal annars leitt til þess að 33 munkar og nunnur hafa kveikt í sér í örvæntingu síðan 2011.  Tillagan kveður á um að Alþingi fordæmi vaxandi hörku gagnvart friðsömum mótmælum í Tíbet, en í byrjun árs voru t.d. 6 mótmælendur myrtir og yfir 60 særðir af öryggissveitum kínverskra yfirvalda.

Þá leggja þingmenn Hreyfingarinnar til að Alþingi hvetji kínversk yfirvöld til að hætta samstundis svokölluðum endurmenntunarþvingunum á tíbetskum munkum og nunnum þar sem þau eru m.a. þvinguð til að fordæma Dalai Lama, ellegar sæta þungum refsingum, og hafna honum sem andlegum leiðtoga, þrátt fyrir að staða Dalai Lama sem andlegs leiðtoga sé ríkur þáttur trúar þeirra, segir í þingsályktunartillögunni.

Lagt er til að Alþingi hvetji kínversk yfirvöld til að hætta að þvinga tíbetskan almenning til aðlögunar við kínverska menningu með því m.a. að gera kínversku að móðurmáli Tíbeta þar sem Tíbetsk börn eru þvinguð til að læra og tala kínversku í stað síns eigin móðurmáls.  Þá leggja flutningsmenn til að Alþingi hvetji kínversk yfirvöld til að aflétta herkví í Tíbet og til að hleypa tafarlaust alþjóðafjölmiðlun hindrunarlaust og án afskipta inn á þau svæði þar sem sjálfsmorðstíðnin er hvað hæst sem og í einangrunarbúðir hirðingja.

Einnig kveður tillagan á um að Alþingi hvetji Sameinuðu þjóðirnar til að senda tafarlaust sendinefnd til að kanna meint mannréttindabrot, þar á meðal þvingaðar ófrjósemisaðgerðir á tíbetskum konum, þvinganir á hirðingjum af hjarðlandi í einangrunarbúðir, pyntingar og morð á föngum, og til að kanna hvað varð um þá sem hafa horfið í tengslum við handtökur á þátttakendum í mótmælaaðgerðum 2008. 

Að endingu leggja þingmenn Hreyfingarinnar til að Alþingi hvetji Sameinuðu þjóðirnar til að beita sér fyrir því að kínversk yfirvöld hefji án tafar opinberar friðar- og samningsviðræður við tíbetsku útlagastjórnina og að Alþingi hvetji til þess að íslensk stjórnvöld bjóði að vettvangur friðarviðræðnanna á milli kínverskra yfirvalda og tíbetsku útlagastjórnarinnar verði hérlendis, t.d. í Höfða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert