Einstök hljómhviða í Laugardalnum

Karl Ágúst Úlfsson slær taktinn við Laugardalslaug
Karl Ágúst Úlfsson slær taktinn við Laugardalslaug Mbl.is/Ómar Óskarsson

„Takturinn talar til okkar, hann er eitthvað sem við þurfum á að halda," segir Karl Ágúst Úlfsson, sem situr nú við innganginn að Laugardalslaug og ber taktinn á um 100 vatnsdunkum. Gjörninginn kallar hann taktsamfélag, sem hann býður gestum Laugardalslaugar að taka þátt í.

„Það sameinar fólk að slá taktinn saman, trommuhringurinn sem ég er nokkurs konar fulltrúi fyrir gengur út á það að hver og einn sem kemur inn í hringinn á sinn eigin takt og gerist um leið félagi í samfélagi sem getur varað í nokkrar mínútur eða klukkustund, eftir því hverju fólk nennir," segir Karl Ágúst. 

Tilefni taktsamfélagsins er lokahátíð Barnamenningarhátíðar, sem fram fer í Laugardalslaug í dag og hefst klukkan 14. Karl Ágúst segir að margir hafi gengið á taktinn og slegið nokkur slög, en fólk mætti gjarnan staldra við lengur. „Þegar hver og einn leggur til sinn takt verður til einstök hljómhviða sem aldrei verður endurtekin."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert