Margir á ferð með svarta ruslapoka

Við Skeiðarvog í Reykjavík voru þrír íbúar á þönum með …
Við Skeiðarvog í Reykjavík voru þrír íbúar á þönum með svarta ruslapoka þegar ljósmyndari Morgunblaðsins átti leið þar hjá um hádegisbil. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Reykvíkingar eru í dag hvattir til að gefa sér smátíma til að sinna sínu nærumhverfi með því að fara út með einn svartan ruslapoka og fylla hann af rusli úr næsta nágrenni. Hvatningunni hefur verið vel tekið og nú í morgun hafa margir sést á vappi með svarta ruslapoka. 

Það eru samtökin Grænn apríl sem standa fyrir hvatningarátakinu í tilefni af Degi jarðar, sem haldinn er hátíðlegur víða um heim í dag. Viðburður var stofnaður um það á Facebook og hafa 1.598 manns skráð sig þar til þátttöku. Fólk er svo hvatt til að taka mynd af sínum ruslapoka þegar hann hefur fyllst og birta hana á Facebook. 

Klukkutími að fylla pokann

Í hvatningarorðum Græns apríls segir að umgengnin í borginni sé til skammar en ef allir leggist á eitt að fara út og „taka til í stóru stássstofunni okkar“ sé hægt að drífa ruslið burt í einum hvelli. Strax klukkan 8 í morgun voru nokkrir komnir á stjá hér og þar um borgina með svarta ruslapoka og hafa ýmsir birt myndir af afrakstrinum á Facebook.

Það virðist taka flesta innan við eina klukkustund að fylla pokann og því varla ástæða til annars en að drífa sig út og leggja sitt af mörkum til að fegra borgina í góða veðrinu. 

Hér má sjá Facebook síðu viðburðarins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert