Menn hugsuðu ekki skýrt

Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar sem lagði til að ákæra ráðherra vegna afglapa í aðdraganda hrunsins, segir að þingmenn hafi ekki hugsað skýrt þegar greidd voru atkvæði um að sækja Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, einan til saka. Hann segir dóminn ekki hafa komið sér á óvart. 

Atli segir að málatilbúnaður þingmannanefndarinnar hafi laskast við atkvæðagreiðsluna á Alþingi á sínum tíma þegar niðurstaðan var að sækja Geir einan til saka. Þetta sé staðfest í dómnum þar sem fjallað er um Icesave og athafnaleysi í því máli sem hafi verið á ábyrgð þáverandi bankamálaráðherra sem var Björgvin G. Sigurðsson.

Hann minnir einnig á að í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis hafi þrír ráðherrar verið taldir sýna af sér vanrækslu. Verkefni þingmannanefndarinnar hafi verið að skoða hvort það sem fram hefði komið hefði verið nægjanlegt og líklegt til sakfellis. Það hafi verið niðurstaða meirihlutans sem hafi ráðfært sig við allmarga sérfræðinga. Það hafi þó ekki verið dómur og sönnunarfærslan hafi farið fram í landsdómi sem hafi ekki tekist og dómurinn hafi gert sterkar kröfur um sönnun, jafnvel þó vel hafi verið sýnt fram á að Geir hafi vitað um stöðu mála og hafi átt að sýna einhver viðbrögð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert