Reyktu að vild á Austurvelli

Ungur karlmaður reykir úr plastflösku á Austurvelli. Myndin er fengin …
Ungur karlmaður reykir úr plastflösku á Austurvelli. Myndin er fengin úr myndaseríunni sem birt var á vefnum 9gag. Ljósmynd/9gag

Lögregla höfuðborgarsvæðisins sá ekki ástæðu til að bregðast við viðburði sem haldinn var á Austurvelli föstudaginn síðastliðinn, 20. apríl, þar sem vakin var athygli á málstað hópsins Rvk Homegrown, en hann berst fyrir lögleiðingu kannabisefna. Af myndum að dæma reykti fólkið ólögleg vímuefni.

Myndasyrpa af Austurvelli var birt á afþreyingarvefnum 9gag en hann er afar fjölsóttur. Þar segir að fólk hafi verið boðað til að mæta fyrir utan Alþingi og reykja kannabisefni til að mótamæla vímuefnalöggjöfinni íslensku. Þá kemur fram að sökum þess að þetta sé annað árið í röð sem viðburðurinn sé haldinn hafi þeir óttast að mætingin yrði dræm, annað hafi komið á daginn.

Á myndunum má sjá ungt fólk reykja það sem virðist vera kannabisefni úr vafningum, plastflöskum og öðrum þar til gerðum tækjum og tólum. Einnig má sjá að lögreglubíl er ekið framhjá Austurvelli. Tekið er sérstaklega fram að lögregla hafi ekki haft afskipti af fólkinu, en hafi vel vitað hvað væri í gangi.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, staðfestir í samtali við mbl.is að lögregla hafi vitað af viðburðinum. Aðstandendur hafi fengið leyfi hjá Reykjavíkurborg til að kríta á stéttar slagorð sín og myndir af kannabislaufum. „Það var þó ekki minnst á að fólk myndi neyta ólöglegra efna þarna.“

Hins vegar segir Friðrik Smári að lögregla hafi haft spurnir af því að fólk væri hvatt til að þykjast reykja kannabisefni. „Við fylgdumst með úr fjarlægð og ekki þótti ástæða til að bregðast við.“

Engin tilviljun er að umræddur viðburður fór fram á föstudag eða að fólk hafi verið hvatt til að kveikja sér í „jónu“, þ.e. kannabisvafningi, kl. 16.20. Segja má að 20. apríl hvert ár sé nokkurs konar dagur kannabisefna á heimsvísu. Og þann dag neyti menn sérstaklega kannabisefna kl. 16.20. Ýmist er talað um 420 eða 4/20 og er um rótgróna hátíð að ræða í kannabisheiminum.

Í tilefni af því að haldið var upp á 4/20 hér á landi með ofangreindum viðburði sendi mbl.is fyrirspurn til Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Spurningarnar lutu að því hvort lögreglustjóranum þætti eðlilegt að hópur fólks reykti ólögleg vímuefni á Austurvelli, og það um hábjartan dag.

Einnig var lögreglustjórinn spurður um það hvaða skilaboð hann teldi að send væru út í samfélagið þegar viðburður að þessu tagi væri látinn óátalinn af lögreglu, þrátt fyrir vitneskju um hann.

Að lokum hvort ekki hefði verið eðlilegra að lögregla athugaði hvort verið væri að neyta ólöglegra vímuefna á Austurvelli í stað þess að gefa sér að fólk væri að þykjast.

Stefán kvaðst ekki hafa neinu að bæta við svar Friðriks Smára.

Úr myndasyrpunni sem birt var á afþreyingarvefnum 9gag, en myndirnar …
Úr myndasyrpunni sem birt var á afþreyingarvefnum 9gag, en myndirnar voru teknar á Austurvelli á föstudag. Ljósmynd/9gag
Önnur mynd úr myndaseríunni sem birt var á 9gag af …
Önnur mynd úr myndaseríunni sem birt var á 9gag af viðburði Rvk homegrown á Austurvelli 20. apríl sl. Ljósmynd/9gag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert