Staðfest vegna kókaínmáls

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/GSH

Hæstiréttur hefur staðfest tíu til fimmtán mánaða fangelsi yfir þremur karlmönnum fyrir vörslu kókaíns í sumarhúsi í Ölfusborgum. Sá sem fékk þyngsta dóminn var einnig dæmdur fyrir innflutning á efninu.

Um var að ræða 374 grömm af kókaíni ætlað til söludreifingar hér á landi. Fíkniefnin fundust í sumarhúsinu þar sem þeir voru að þurrka þau en þau voru blaut eftir að hafa legið í um eitt ár í jörðu.

Sá sem fékk fimmtán mánaða dóm sat í gæsluvarðhaldi frá 28. október 2011 til 4. nóvember 2011 og frá 10. desember 2011 til 30. desember 2011 og dragast þeir dagar frá refsingunni.

Tveir félagar hans voru dæmdir í tíu mánaða fangelsi en þeir sátu báðir í gæsluvarðhaldi frá 28. október til 4. nóvember og dragast þeir dagar frá refsingunni.

Alls er þeim gert að greiða rúmar þrjár milljónir króna í sakarkostnað.

Sá sem fékk þyngsta dóminn er fæddur árið 1968. Upplýsingar liggja fyrir um sakarferil hans frá Interpol í Vilnius í Litháen þar sem fram kemur að hann hefur verið sakfelldur sex sinnum fyrir þjófnað á árunum 1992 til 2009 og árið 1998 fyrir ólæti á almannafæri en hann hefur aldrei sætt refsingu á Íslandi. Hann var fundinn sekur um að standa einn að innflutningi á kókaíninu og einnig fyrir vörslu og meðferð á talsverðu magni af fíkniefnum ætluðum til söludreifingar í ágóðaskyni í félagi við hina tvo.  Gaf hann þá skýringu á því hvers vegna hann hefði falið fíkniefnin í jörðu í heilt ár að hann hefði ekki komist til landsins í heilt ár. Aðspurður hversu oft hann hefði komið til Íslands svaraði maðurinn því til að hann þekkti marga hér á landi, og teldi að hann væri nú að koma hingað í þriðja skiptið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert