Reglugerð brýtur gegn alþjóðalögum

Á fundi sameiginlegu EES nefndarinnar í dag var lögð fram yfirlýsing Íslands vegna fyrirliggjandi tillögu ESB um reglugerðarheimild til að beita viðskiptaaðgerðum gegn ríkjum sem stunda ósjálfbærar fiskveiðar. Í yfirlýsingu Íslands er ítrekað að efni fyrirhugaðrar reglugerðar brjóti í bága við alþjóðalög þar á meðal EES-samninginn.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Evrópuþingið hefur verið með til umfjöllunar tillögu framkvæmdastjórnarinnar um reglugerð sem heimili ESB að beita viðskiptaaðgerðum gegn ríkjum sem stundi ósjálfbærar fiskveiðar að þess mati.

„Í meðförum þingsins hefur ákvæðum tillögunnar verið breytt þannig að þau ganga í berhögg við EES samninginn. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna þessara breytingatillagna og komið á framfæri mótmælum bæði munnlega og skriflega við sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins, framkvæmdastjórn ESB og við aðildarríki þess.

Í yfirlýsingunni beina íslensk stjórnvöld því til Evrópusambandsins að það virði í hvívetna alþjóðlegar skuldbindingar sínar við ákvarðanir og beitingu viðskiptaaðgerða af þessu tagi. Sérstaklega er vísað til ákvæða bókunar 9 í EES samningnum sem banna allar viðskiptaaðgerðir sem ganga lengra en löndunarbann á fiski úr sameiginlegum stofnum og sem sem deilur standa um,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert