Reyna að bjarga verkefninu

Fyrirhuguð kísilverksmiðja á að rísa í Helguvík. Mynd fengin af …
Fyrirhuguð kísilverksmiðja á að rísa í Helguvík. Mynd fengin af vef Íslenska kísilfélagsins.

Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri Íslenska kísilfélagsins, segir að félagið hafi orðið að rifta samkomulagi við bandaríska fyrirtækið Globe Specialty Metals (GSM) þar sem það hafi ekki staðið við sinn hluta samkomulags vegna framkvæmda við fyrirhugað kísilver í Helguvík.

Magnús segir í samtali við mbl.is að samkomulaginu hafi verið rift 23. apríl sl. og að GSM hafi ekki mótmælt riftuninni.

Félögin höfðu gert skriftarsamning um fjármögnun verkefnisins en í janúar sl. hætti GSM að standa við sinn hluta samkomulagsins og standa skil á greiðslum vegna verkefnisins.

„Nú erum við að reyna bjarga verkefninu og við verðum að gera það sjálfir til að byrja með,“ segir Magnús og bætir við að það sé of snemmt að segja nokkuð til um það hvert framhaldið verði. Næsta skref sé að hnýta alla lausa enda sem tengjast GSM.

Hann segir að allt fram til áramóta hafi samstarfið við GSM gengið vel, en allt síðasta ár unnu félögin sameiginlega að verkefninu. Samskipti höfðu verið góð og þá voru félögin búin að fjármagna verkefnið í sameiningu.

„Í vetur hættu þeir að borga inn og við skildum ekki af hverju til að byrja með,“ segir Magnús. Það hafi svo komið í ljós GSM hafði augastað á annarri verksmiðju í Kanada.

„Þetta féll nákvæmlega saman með því að þeir allt í einu hættu við okkur,“ segir Magnús, sem bætir því við að hann hafi þó aldrei fengið skýr svör frá GSM hvers vegna þeir ákváðu að hætta við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert