Sér ekki um fjármál Þorláksbúðar

Þorláksbúð stendur við Skálholtskirkju.
Þorláksbúð stendur við Skálholtskirkju.

Guðmundur Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, kannast ekki við að það sé á verksviði Skálholtsstaðar og Skálholtsskóla að halda utan um fjármál vegna byggingar Þorláksbúðar í Skálholti.

Þetta sagði hann í viðtali við RÚV í dag. Árni Johnsen, forsvarsmaður Þorláksbúðarfélagsins, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að Skálholtsstaður og Skálholtsskóli annist fjármálahlið verkefnisins. Hann segist ekki vita betur en verið sé að taka saman þau gögn sem Ríkisendurskoðun hefur óskað eftir.

Guðmundur Þór segir þarna sé einhver misskilningur á ferð. Aldrei hafi verið um það samið að Skálholtsstaður sæi um fjármál vegna byggingar Þorláksbúðar. Samið hafi verið um að Þorláksbúðarfélagið sæi um alla þætti verkefnisins en þegar smíðinni væri að fullu lokið yrði Þorláksbúð afhent Skálholti.

Þorláksbúðarfélagið hefur ekki skilað yfirliti ársreikninga til Ríkisendurskoðunar þrátt fyrir ítrekaðar óskir stofnunarinnar. Ríkið hefur veitt 9,5 milljónir til framkvæmdanna frá árinu 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert