Minni losun gróðurhúsalofttegunda frá áliðnaði

ÍSAL Straumsvík
ÍSAL Straumsvík mbl.is/Árni Sæberg

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi minnkaði á síðasta ári um 6% á hvert framleitt tonn. Losun hefur minnkað um 75% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990.

Ragnar Guðmundsson, formaður Samáls, samtaka álfyrirtækja, segir að árangur álfyrirtækjanna á Íslandi sé mun betri en fyrirtækja annars staðar í heiminum. Losun gróðurhúsalofttegunda í Kína, þar sem framleiðsla hefur aukist mikið, sé um 15 tonn á hvert áltonn. Á Íslandi sé losunin 1,6 tonn á hvert framleitt áltonn.

Á fundinum í dag kom fram að losun flúors frá áliðnaði á Íslandi lækkaði um 6% í fyrra á hvert framleitt tonn. Frá 1990 hefur losun flúors frá áliðnaði lækkað um 96%.

Ragnar sagði að á fundinum í dag að endurvinnsla í áliðnaði væri mjög mikil. 75% af öllu áli sem framleitt hefði frá upphafi í heiminum væri enn í notkun. Ragnar sagði að notkun á léttum málmi eins og áli sparaði mikið í umhverfismálum, því léttari vélar þýddi minni losun gróðurhúsalofttegunda í flutningastarfsemi.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti ávarp á fundinum. Hún benti á að þó að dregið hafi úr losun á gróðurhúsalofttegundum á hvert áltonn sem framleitt er á Íslandi hefði heildarlosun frá íslenskum áliðnaði aukist verulega á síðustu árum vegna aukinnar framleiðslu hér á landi.

Við ákvörðun Evrópusambandsins um losunarheimildir fyrir álver sem taka gildi frá árinu 2013 er tekið mið af frammistöðu þeirra 10% álvera í Evrópu sem best standa sig í þessum efnum og eru íslensku álverin öll í þeim hópi. Ragnar sagði að engu að síður þyrftu íslensku álfyrirtækin að greiða háar upphæðir þegar þetta kerfi yrði tekið upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert