Tékkar sýna málstað Íslendinga í makríldeilunni skilning

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra er hér í fylgdarliði forseta Íslands á …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra er hér í fylgdarliði forseta Íslands á fundi hans með forseta Tékklands, Vaclav Klaus, sem fram fór í forsetahöll Tékklands fyrr í dag. mbl.is/Börkur

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að makríldeilan hafi komið til umræðu á fundi forseta Tékklands og Íslands, sem þeir áttu í dag í Prag, í opinberri heimsókn forseta Íslands til landsins.

„Á fundi með forsetanum var rætt um makríl að frumkvæði íslenska forsetans,“ segir Össur í samtali við mbl.is en hann sat fundinn ásamt forsetanum. 

„Ég fór nákvæmlega yfir stöðu þess máls og lýsti þeirri skoðun Íslendinga að ef gripið yrði til ákveðinna aðgerða sem til umræðu væru hjá Evrópusambandinu að þá bryti það í bága við reglur innri markaðarins, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og EES-samningsins, sérstaklega hina frægu bókun 9 sem snýst um fisk. Forseti Tékklands sagði eðlilega að Tékkar sem landlukt þjóð hefðu kannski ekki þekkingu á þessu, en að þeir hefðu skilning á málstað Íslendinga og að Evrópusambandið yrði að fylgja alþjóðlegum samningum. Hann bauðst jafnframt til þess að láta sína sérfræðinga skoða þau gögn sem við vildum gjarnan fara yfir með tékkneskum embættismönnum. Ég mun taka þetta mál upp á fundi með utanríkisráðherra Tékklands á morgun. Ég tók þetta líka upp í ræðu minni í EES-ráðinu fyrr í vikunni og það er hluti af herferð sem utanríkisráðuneytið er með í gangi, því þetta er grafalvarlegt mál,“ segir Össur. En hann mun hitta utanríkisráðherra Tékklands, Karel Schwarzenberg, í hádeginu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert