Sigmund Jóhannsson látinn

Sigmund ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Ólafsdóttur.
Sigmund ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Helgu Ólafsdóttur. Ljósmynd/Eyjafréttir

Uppfinningamaðurinn og teiknarinn Sigmund Jóhannsson Baldvinsen lést í morgun, 81 árs að aldri, eftir erfið veikindi. Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta. Sigmund teiknaði skopmyndir fyrir Morgunblaðið í 44 ár sem sköpuðu sér fastan sess í huga þjóðarinnar.

Fyrsta mynd hans í Morgunblaðinu birtist hinn 25. febrúar 1964 og tengdist fyrstu landgöngu í Surtsey. Í Heimaeyjargosinu árið 1973 varð Sigmund fastráðinn við Morgunblaðið.

Sigmund var einnig þekktur fyrir uppfinningar sínar en hann var menntaður vélstjóri og hafði mikinn áhuga á öryggismálum sjómanna. M.a. hannaði hann sjálfvirkan sleppibúnað fyrir björgunarbáta sem hefur bjargað mörgum mannslífum.  

Fram kemur á vefsíðunni Heimaslóð að Sigmund fæddist 22. apríl 1931 í Noregi, faðir hans var íslenskur en móðir hans norsk. Þriggja ára gamall flutti Sigmund til Íslands. Hann var búsettur í Vestmannaeyjum og var í janúar síðastliðnum valinn Eyjamaður ársins 2011. Sigmund lætur eftir sig eiginkonu, Helgu Ólafsdóttur, og þrjá syni, þá Ólaf Ragnar, Hlyn og Björn Braga. 

Skopmyndir Sigmunds eru aðgengilegar á vefsíðunni Sigmund.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert