Engar tillögur um lækkun veiðigjalds

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Alþingi.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Alþingi. mbl.is/Eggert

Frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjald var ekki afgreitt úr atvinnuveganefnd í dag og ekki lagðar fram tillögur að lækkun gjaldanna. Fréttablaðið hafði eftir ónafngreindum heimildum í dag að þetta stæði til en að sögn Jóns Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokks voru engar tillögur lagðar fram af hálfu stjórnarliðar.

„Þeir sýndu ekki á nein spil í morgun. Við tókum hálftíma umræðu í nefndinni um málið,en það er greinilega ekki komin sátt um einhverjar niðurstöðu, ekki sem þeir vildu leggja fram fyrir okkur allavega,“ segir Jón. Í forsíðufrétt Fréttablaðsins segir að ákveðið hafi verið að bregðast við ýmsum athugasemdum, ekki síst er varða skuldsetningu sjávarútvegsfyrirtækja. M.a. lagt til að veiðigjald verði lækkað til muna frá því sem er í frumvarpinu.

Verði frestað fram á haust

Jón segir að þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna í atvinnuveganefnd hafi ekki nefnt þessi atriði á fundi nefndarinnar í dag. „En ég gef mér það að þeir séu að skoða leiðir og það má ráða af orðum manna að þeir séu að reyna að fá niðurstöðu um eitthvert ásættanlegt veiðigjald, en við höfum ekki séð neina útfærslu af því ennþá.“

Sjálfstæðismenn vilja að afgreiðslu frumvarpanna verði frestað til haustþings. „Við lögðum áherslu á að það væri best að setja þetta mál til hliðar núna og reyna að vinna að einhverri tillögu í sumar sem næðist víðtækari sátt um, þar sem við værum með fulltrúa allra stjórnmálaflokka, sveitarfélaga og hagsmunaaðila við borðið, og leggja þá fram í haust nýtt mál sem væri víðtækari sátt um,“ segir Jón.

Næsti fundur í atvinnuveganefnd verður á morgun. Jón segir að stjórnarþingmenn hafi engin áheit gefið um það hvort þær myndu leggja fram tillögur að breytingum á þeim fundi eða vera tilbúnir að afgreiða frumvarpið úr nefndinni.

Ekki náðist í Kristján L. Möller, formann atvinnuveganefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert