Alltaf gengið vel að semja við ESB

Baldur Þórhallsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í morgun að Íslandi hefði alltaf gengið vel að semja við Evrópusambandið. Hann hvatti til þess að látið yrði reyna á samningsvilja ESB.

Baldur sagði að Ísland hefði náð fram nær öllum sínum kröfum þegar Ísland samdi um fríverslunarsamning við ESB árið 1972. Ísland hefði einnig náð fram nær öllum kröfum sínum þegar það samdi við ESB um EES-samninginn árið 1994 og sama hefði verið upp á teningnum í viðræðum um Schengen. Baldur sagði í raun stórmerkilegt hvað okkur hefði gengið vel að semja við ESB.

Baldur sagði að það ætti eftir að svara mörgum spurningum í samningaviðræðum um aðild að ESB. Það væri ekki ljóst hvort við næðum fram kröfum okkar í sjávarútvegsmálum. Það væri ekki ljóst hvort Seðlabanki Evrópu væri tilbúinn til að styðja við krónuna og aðstoða við afnám gjaldeyrishafta. Sama ætti við hvort við gætum náð samningum atvinnuuppbyggingu og bættar samgöngur. Þá væri ekki ljóst hvort Ísland gæti fengið sama samning í landbúnaðarmálum og Svíar og Finnar fengu.

Unnur Brá Konráðsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, sagði að sá munur væri á viðræðum við ESB nú og áður að það væri enginn sannfæring að baki umsókn Íslands að ESB. Að henni stæðu einungis nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokks, hvatti þingmenn til að kynna sér reglur ESB um stækkun sambandsins. Ísland ætti þess ekki kost að semja sig frá meginreglum ESB.

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, hvatti til þess að beðið yrði með að bera málið undir þjóðina þangað til samningsniðurstaða lægi fyrir. Að hætta viðræðum við ESB nú væri ávísun á áratugaþrætur um að þjóðin hefði aldrei fengið að segja álit sitt á efni málsins. Sama ætti við þá hugmynd að láta kjósa um einstaka samningskafla, en Ögmundur Jónasson og Svandís Svavarsdóttir hafa hvatt til þess að það verði gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert