Fylgjast þarf með Krýsuvíkursvæðinu

Frá Krýsuvík.
Frá Krýsuvík. Rax / Ragnar Axelsson

Sprungugos í norðurhluta þess sprungukerfis, sem liggur frá megineldstöðinni í Krýsuvík,  geta hugsanlega komið upp í Heiðmörk eða í grennd við Elliðavatn og því er full ástæða til að fylgjast náið með því sem gerist á Krýsuvíkursvæðinu.

Þetta segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og forstöðumaður Eldfjallasafns í Stykkishólmi.

Næsta eldstöð við Reykjavík

„Þetta er næsta eldstöð við Reykjavík og er ennþá virk, þarna gaus síðast árið 1151, í sprungugosi. Þá varð til Ögmundarhraun, sem rann að mestu út í sjó undan Krýsuvíkurbergi, Kapelluhraun og Gvendarselshraun.“

Krýsuvík er megineldstöð með sprungukerfi sem teygir sig frá Selatöngum í suðri til Heiðmerkur í norðaustri og endar sprungan skammt suðvestan Heiðmerkur.

Nokkur byggð er á þessum slóðum, tiltölulega nýtt íbúðarhverfi í Hafnarfirði og þarna er líka Álverið í Straumsvík. „Þetta er ungt hraun og þar sem það er, þar eru líkur á að gjósi aftur,“ segir Haraldur. „Ég er ekkert að segja að það sé að fara að gjósa, síður en svo, en þetta er virk eldstöð.“ 

Stöðugt landris

Að sögn Haraldar hefur land verið að rísa meira eða minna stöðugt frá árinu 2010 og hefur mest verið 5 sentímetrar á ári. Hann segir tvær skýringar geta verið á landrisinu. „Annars vegar gæti verið að þarna sé kvika á hreyfingu, hin kenningin er að þarna gæti gufupúði hafa myndast. Ef þetta er kvika, þá gæti hún farið inn í sprungusveim Krýsuvíkurkerfisins og hugsanlega komist upp og þá verður sprengigos.“ Hann segir að svipað landris hafi verið á Kröflusvæðinu áður en þar gaus á áttunda áratugnum.

Vel fylgst með svæðinu

Haraldur segir að afar vel sé fylgst með gangi mála á svæðinu. Veðurstofa Íslands er þar með skjálftamæli, Háskóli Íslands mælir landris og landsig og ÍSOR fylgist með þeim borholum sem eru á svæðinu.

Hann segir enga ástæðu til að óttast náttúrhamfarir, en gott sé að vera meðvitaður um að þarna er virk eldstöð.

Bloggsíða Haraldar Sigurðssonar

Fjallið Arnarfell í Krýsuvík
Fjallið Arnarfell í Krýsuvík Þorvaldur Örn Kristmundsson
Frá Krýsuvík.
Frá Krýsuvík. Golli
Frá Krýsuvík
Frá Krýsuvík mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert