Fleiri deyja en fæðast

Vegna fækkunar fólks á landsbyggðinni hafa orðið miklar breytingar á aldurssamsetningu í sumum sveitarfélögum. Dæmi eru um sveitarfélög á landsbyggðinni þar fleiri deyja en fæðast og fækkar fólki því án þess að komi til brottflutnings.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Byggðastofnunar. Í skýrslunni er fjallað um lýðfræðilegar breytingar á landsbyggðinni. Tekið er dæmi af norðanverðum Vestfjörðum. Í sveitarfélögunum Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp fækkaði fólki úr 6.300 í 4.830 á tímabilinu 1994-2011, eða um rúm 23%. Sú fækkun var misjöfn eftir aldurshópum en fólki innan við fertugt fækkaði um tæplega 1.800 manns á meðan fertugum og eldri fjölgaði um rúmlega 300. Þessi breyting á lýðfræðilegri samsetningu mannfjöldans leiðir aftur til þess að fæðingum fækkar.

Í skýrslunni er einnig tekið dæmi um Austur-Húnavatnssýslu, þ.e. Blönduósbæ, Sveitarfélagið Skagaströnd, Húnavatnshrepp og Skagabyggð. Þar hefur fæddum börnum fækkað fyrir hvert fjögurra ára tímabil, úr tæplega 140 í tæplega 100 á meðan að dánartíðni hefur verið nokkuð stöðug. „Víða er hægt að finna svipaða þróun og dæmi eru um að fæðingar séu orðnar færri en dauðsföll sem leiðir af sér náttúrulega fækkun fólks til viðbótar við fólksfækkun vegna brottflutnings,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert