„Elta drauma og fylgja ástríðu“

Þorgrímur tekur við styrknum í dag úr hendi Björns Jóhannssonar, …
Þorgrímur tekur við styrknum í dag úr hendi Björns Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Pokasjóðs. Ljósmynd/Brynjar Gauti

„Pokasjóður leitaði til mín í lok síðasta árs og óskaði eftir því að ég héldi svona mannræktarfyrirlestra fyrir nemendur í 10. bekk á Íslandi. Eins marga og ég gæti. Ég hafði tímabilið frá janúar og fram í maí til að tala við nemendur,“ sagði Þorgrímur Þráinsson sem í dag hlaut styrk frá Pokasjóði upp á fimm milljónir fyrir mannræktarverkefni í í grunnskólum landsins næsta vetur þar sem hann mun halda áfram frá fyrri vetri og stefnir á að hitta alla 10. bekki í landinu.

„Það voru tveir fyrirlestrar á dag og þetta gerði það að verkum að ég náði að tala við um 3.000 nemendur. Fyrirlesturinn heitir „Eltu drauminn þinn“ þar sem ég er að hvetja krakka til að elta sinn draum, sama hver hann er. Koma vel fram við aðra, gera góðverk, taka til í herberginu sínu og síðast en ekki síst að fá sem mest út úr hverju einasta augnabliki. Allt sem þau gera yfir daginn skiptir máli,“ sagði Þorgrímur.

Lætur nemendur setja sér markmið fyrir framtíðina

„Því til stuðnings segi ég sögu af Ólafi Stefánssyni, sem lifir fyrir hvert augnablik og nær frábærum árangri. Ég minnist á Gylfa Þór Sigurðsson, hvernig hann leggur extra á sig til að elta sinn draum. Ég segi frá handalausum tennisleikara sem vinnur tennismót. Kenni krökkum hreinlega að fara út fyrir þægindahringinn í litlum skrefum og undir lok tímans setja þau sér markmið á 15 mínútum. Hvað þau langi til að upplifa næstu daga, vikur, mánuði og ár,“ sagði Þorgrímur.

„Það að fá að standa fyrir framan einn bekk í einu í 80 mínútur eru algjör forréttindi. Það eru engir tveir fyrirlestrar eins. Ef ég skynja í hópnum 1-2 nemendur sem eru í pínu áhættu tala ég aðeins um áfengi og tóbak. Segi frá vini mínum sem dó 26 ára. Ef hópurinn er mjög flottur og engin svona áhætta þá tala ég svolítið um aðra hluti. En kjarninn er alltaf þessi sami: Eltu drauminn þinn og fylgdu ástríðunni.“

Hélt 143 fyrirlestra fyrir nemendur

Þorgrímur hélt alls 143 fyrirlestra á þessu tímabili og segir engin vandamál hafa komið upp á þeim. „Ég hef sagt það áður og endurtek það, 98% af nemendum í 10. bekk eru frábærir. Þannig að allt tal um einhver unglingavandamál - það er kannski einn sem skemmir fyrir þúsund,“ sagði Þorgrímur.

Þorgrímur segir að það hafi alltaf verið einhverjir aðrir fullorðnir á fyrirlestrunum til vitnis, skólastjórar, deildarstjórar, kennarar eða námsráðgjafar, og að það hafi skipt máli.

„Ég fór um allt land. Sendi öllum skólum á Íslandi póst og það stóð öllum til boða. Sumir þáðu og aðrir ekki,“ sagði Þorgrímur og bætti við: „Þessi styrkur gerir það að verkum að ég mun byrja í september og enda í maí þannig að ég mun þá núna geta klárað alla nemendur í 10. bekk. Ekki þrjá fjórðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka