Skylda VG að grípa í taumana í Evrópumálunum

Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrverandi ráðherra.
Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrverandi ráðherra. mbl.is

„VG getur ekki látið það viðgangast með hliðjón af stefnu sinni og hugsjónum að svo ósvífnum skollaleik sé áfram haldið enn eitt ár í viðbót í nafni ríkisstjórnar, sem flokkurinn á aðild að, án þess að þjóðin fái tækifæri til að segja hug sinn,“ segir Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra og áhrifamaður innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB í dag um umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið.

Ragnar er harðorður í garð VG vegna Evrópumálanna. Hann segir að það kunni að þjóna ágætlega hagsmunum Samfylkingarinnar að hafa málið ófrágengið fram yfir næstu kosningar enda vinni Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra að því að tefja það. „En fyrir VG er óhugsandi og nánast dauðadómur að sigla inn í kosningabaráttu komandi vetrar með ESB-málið í lausu lofti, enda er nú svo komið að almennir kjósendur botna hvorki upp né niður í því fyrir hvað flokkurinn stendur í þessu máli.“

Hann segir forystu VG ekki lengur geta vísað í það að verið sé að kíkja í pakkann hvað ESB hafi upp á að bjóða þegar umsóknarferlið hafi verið í gangi í þrjú ár, hafi sá málflutningur einhvern tímann verið brúklegur að mati einhverra. Hann segir það skyldu VG að grípa núna í taumana gagnvart samstarfsflokknum í ríkisstjórn og segja hingað og ekki lengra.

„Þegar við blasir að þeir sem stóðu að umsókninni um ESB-aðild reyna sjálfir hvað þeir geta að tefja tímann í góðri samvinnu við stækkunardeild ESB vegna þess að þeir vita að málið er steindautt um leið og þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram, þá er það skylda VG að grípa í taumana og segja við samstarfsflokkinn: Hingað og ekki lengra! Nú er nóg komið! Annaðhvort greiðum við atkvæði um það ekki síðar en í haust hvort þjóðin vill ganga í ESB – eða við leggjum málið til hliðar og hreyfum ekki við því aftur nema að undangengnu þjóðaratkvæði,“ segir Ragnar.

Grein Ragnars Arnalds í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert