Ísland tilnefnt fyrir fiskveiðistjórnarlögin

Fram kemur í tilkynningu frá alþjóðlegu samtökunum World Future Council að Ísland sé á meðal þeirra sem tilnefndir hafa verið til verðlauna sem samtökin veita á hverju ári fyrir stefnumótanir sem eru til þess fallnar að skapa meiri lífsgæði fyrir núverandi og framtíðarkynslóðir.

Verðlaunin nefnast Future Policy Award og er Ísland tilnefnt til þeirra fyrir lög nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða en um er að ræða þau lög sem núverandi stjórn fiskveiða við Ísland er byggð á en þau eru að uppruna frá árinu 1990.

Í tilkynningunni segir að í ár séu verðlaunin tileinkuð stefnumótun vegna sjávarútvegsmála sem þyki til fyrirmyndar. Unnið hafi verið að undirbúningi verðlaunaafhendingarinnar meðal annars í samstarfi við stofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna og tilnefningar hafi komið frá sérfræðingum á sviði sjávarútvegsmála hjá alþjóðastofnunum, háskólastofnunum, sjálfstæðum rannsóknarstofnunum.

Þá segir að tilkynnt verði í höfuðstöðvum SÞ í New York í september næstkomandi hver vinni til verðlaunanna.

Listi yfir allar tilnefningar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert