Yfir 500 athugasemdir

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknar og Árni Þór Sigurðsson, þingmaður …
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknar og Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG. mbl.is/Ómar

Umræður um frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjöld hafa staðið í samtals um 40 klukkustundir. Búið er að flytja yfir 70 ræður um málið og yfir 500 athugasemdir.

Umræða um málið hefur staðið í allan dag, en þetta er fimmti dagurinn síðan önnur umræða um frumvarpið hófst. Það eru aðallega þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokk sem hafa talað við umræðuna.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur flutt flestar ræður eða fjórar, en hann hefur líka 51 sinni komið upp í andsvörum. Samtals hefur hann talað í tvær klukkustundir og 48 mínútur um málið.

Í umræðunni í kvöld kvartaði Pétur H. Blöndal alþingismaður undan því að sumir ráðherrar hefðu ekkert tjáð sig um þetta mál. Hann sagði að Jóhanna Sigurðardóttir, Oddný Harðardóttir, Svandís Svavarsdóttir og Ögmundur Jónasson hefðu enga ræðu flutt við þessa umræðu.

Þó margar ræður hafi verið fluttar um þetta mál eru mörg dæmi á Alþingi um lengri umræður um umdeild þingmál.

Ekkert liggur fyrir um hvenær umræðunni lýkur, en á morgun hafa andstæðingar frumvarpsins boðað til fundar á Austurvelli. Áhafnir allmargra skipa ætla að sigla til Reykjavíkur og taka þátt í fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert