Metaðsókn að Háskólanum í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Við lok umsóknarfrests um nám á haustönn 2012 höfðu fleiri umsóknir borist en nokkru sinni í sögu Háskólans í Reykjavík og var aukningin ríflega 22% á milli ára.

Þegar umsóknarfrestur rann út á miðnætti þann 5. júní höfðu 2099 umsóknir um skólavist borist til Háskólans í Reykjavík.  Það eru 22% fleiri umsóknir en bárust á sama tíma árið 2011 og 44% fleiri umsóknir um skólavist en bárust árið 2010. Þetta er ennfremur mesti fjöldi umsókna sem borist hefur um nám á haustönn frá stofnun háskólans, segir í tilkynningu frá skólanum.

Mesta aukningin er í tölvunarfræðideild en þar fjölgaði umsóknum um ríflega 50% á milli ára, en einnig varð mikil fjölgun í umsóknum um nám í tækni- og verkfræðideild. Þetta er í takt við þau skilaboð sem komið hafa frá atvinnulífinu, sem hefur kallað eftir stóreflingu tæknimenntunar á Íslandi.

Sérsvið Háskólans í Reykjavík eru kennsla og rannsóknir í tækni, viðskiptum og lögum, með áherslu á sterk tengsl við atvinnulíf, alþjóðlegt háskólasamfélag og persónulegt viðmót. Í dag stunda um 3000 nemendur nám við háskólann og er hann bæði stærstur og öflugastur á sínum kjarnasviðum. HR útskrifar tvo af hverjum þremur sem ljúka tækninámi á háskólastigi á Íslandi, helming þeirra sem ljúka viðskiptanámi og þriðjung þeirra sem ljúka laganámi, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert